Fréttir


Kynningarfundir vegna laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.

23.6.2022

Barna- og fjölskyldustofa fór ásamt fulltrúum frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu hringinn í kringum landið nú á vormánuðunum og fundaði með fulltrúum 61 sveitarfélags. Fundirnir voru haldnir á 10 stöðum: Reykjanesbæ, Reykjavík, Ísafirði, Höfn í Hornafirði, Borgarnesi, Blönduósi, Akureyri, Egilsstöðum, Þorlákshöfn og Hellu. Yfir 130 manns mættu á þessa fundi og komu þeir að mestu frá félagsþjónustu og skólaþjónustu svæðanna og/eða sveitarstjórnum. Einnig voru fulltrúar heilsugæslu og framhaldsskóla á nokkrum stöðum. Markmið fundanna var að kynna nýja stofnun og lögin um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Einnig að heyra frá sveitarfélögunum hvar þau væru stödd í innleiðingarferlinu á nýju lögunum og eiga samtal um helstu áskoranir og tækifæri í tengslum við lögin.

Ánægjulegt var að heyra að sveitarfélögin eru langflest byrjuð á innleiðingarferlinu. Allir voru áhugasamir um nýju lögin og litu á þau sem framfaraskref varðandi þjónustu við börn og fjölskyldur. Góðar vangaveltur og líka ýmsar spurningar komu fram á fundunum ásamt gagnlegum ábendingum. Starfsfólk Barna- og fjölskyldustofu þakkar fyrir afar ánægjulegar og gagnlegar heimsóknir og munu þær upplýsingar sem þar komu fram nýtast vel við áframhaldandi innleiðingarstarf. 

 Hér má nálgast kynninguna


Þetta vefsvæði byggir á Eplica