Fósturráðstöfun

Um fóstur er ræða þegar barnaverndarþjónusta felur fósturforeldrum forsjá eða umsjá barns. Þær fósturráðstafanir sem um er að ræða eru tímabundið fóstur, varanlegt fóstur og styrkt fóstur.

Fóstur

Um fóstur er ræða þegar barnaverndarþjónusta felur fósturforeldrum umsjá barns. Ástæður þess geta hvort sem er verið erfiðleikar barns, að uppeldisaðstæðum þess sé áfátt, eða hvoru tveggja. Þær fósturráðstafanir sem um getur verið að ræða eru tímabundið fóstur, varanlegt fóstur og styrkt fóstur.

Tímabundið fóstur

Barni er komi í tímabundið fóstur þegar ætla má að unnt verði að bæta úr því ástandi sem var tilefni fóstursins innan takmarkaðs tíma þannig að það geti snúið heim að nýju. Þannig eru markmið ráðstöfunarinnar ólík því sem við á um varanlegt fóstur. Reglugerð um fóstur segir til um að tímabundið fóstur geti staðið að einu ári en lengur í undantekningartilvikum.

Varanlegt fóstur

Um varanlegt fóstur er að ræða þegar barni er komið í fóstur þar til það verður sjálfráða. Barni skal komið í varanlegt fóstur þegar aðstæður þess kalla á að það alist upp hjá öðrum en foreldrum sínum. Markmiðið með slíkri ráðstöfun er að tryggja fósturbarni viðeigandi uppeldisaðstæður og gefa því tækifæri á að mynda varanleg tengsl við fósturforeldra. Í aðdraganda að varanlegu fóstri er mælt fyrir um reynslutíma sem nefnt er ,,reynslufóstur" í reglugerð um fóstur.

Styrkt fóstur

Með styrktu fóstri er átt við sérstaka umönnun og þjálfun barns á fósturheimili í takmarkaðan tíma, að hámarki tvö ár. Gjarnan er um að ræða börn sem eiga við íþyngjandi tilfinninga- og hegðunarvanda að etja sem ekki hefur tekist að vinna bug á með öðrum og vægari hætti. Gert er ráð fyrir því að annað fósturforeldra tileinki sig verkefninu að fullu, hlutverk þess sé metið sem „fullt starf“.

Það sem einkennir styrkt fóstur umfram hefðbundið tímabundið fóstur er t.d. aukið vandastig barns, áhættuhegðun þess, tileinkun fósturforeldra, krafa um samstarf fósturforeldra við aðra svo sem skóla, heilbrigðisstarfsmenn. Að auki getur reynt á aukið samráð, teymisvinnu, samráðsfundi, aukið eftirlit barnaverndarþjónustu og handleiðslu. Með öðrum orðun er það sú umgjörð sem ríkir um ráðstöfunina sem telst hennar helsta sérkenni, ekki lýsing á vanda barns út af fyrir sig.

Hvenær á styrkt fóstur við?

Við mat á því skal miða við að uppfyllt séu skilyrði og ástæður vistunar á heimili eða stofnun skv. 79. gr. bvl.; þarfir barns séu hins vegar með þeim hætti að betur fari á því að koma því í fóstur. Mál barns skal því hafa hlotið fullnægjandi rannsókn svo sem af hálfu heilbrigðisstofnunar (barnageðdeildar), sálfræðiþjónustu skóla, Stuðla, Greiningarstöðvar ríkisins eða sambærilegs og það mat liggi fyrir að ákvæði 79. gr bv.laga eigi við. Ríkið greiðir hluta kostnaðar vegna styrkts fósturs.

Hverjir veita börnum viðtöku í styrkt fóstur?

Hugmynd Barna- og fjölskyldustofu er sú að einungis þeir fósturforeldrar sem reynslu, menntun og þjálfun hafa veiti börnum viðtöku í styrkt fóstur. Á hinn bóginn kunna þarfir barns eða aðrar aðstæður kallað á aðra lausn.

Hvað einkennir styrkt fóstur?

Umgjörð styrkts fósturs skal gera fósturforeldrum kleift að vinna að því að mæta þörfum barns sem á við mikinn vanda að etja. Tilgangur þess er að aðstoða það við að ná tökum á vanda sínum og auka hæfni þess á sem flestum sviðum, nýta hæfileika sína og búa það undir eigin framtíð. Fósturheimili er þannig nýtt til að efla félagslega færni, sjálfstjórn, læra samskiptareglur og virða mörk og reglur heimilis, hljóta uppbyggilega fyrirmynd o.s.frv. Að auki getur utanaðkomandi meðferð, þjálfun o.s.frv. komið til vegna hegðunar sem krefst sérhæfðrar þekkingar að fást við.

Verklagsreglur um afgreiðslu umsókna um styrkt fóstur  

Staðlar fyrir vistun eða fóstur barna á vegum barnaverndaryfirvalda eru ætlaðir til að skilgreina kröfur um verklag, bæta gæði umönnunar og meðferðar og treysta öryggi og rétt barna sem vistuð eru utan heimilis á Íslandi. Staðall er skilgreining á gæðakröfu eða lýsing á því hvernig vel sé staðið að einstökum verkþætti við vistun barns eða fóstur utan heimilis á vegum barnaverndaryfirvalda.

Ráðgjöf Barna- og fjölskyldustofu vegna fósturmála

Ráðgjöf

Einstaklingar geta leita ráðgjafar hjá Barna- og fjölskyldustofu og fengið upplýsingar um hvort þeir eigi möguleika á að verða fósturforeldrar og hvernig þeir geti látið meta hæfni sína til að taka barn í fóstur. Ráðgjöf til væntanlegra fósturforeldra felst því oft í að veita grundvallarupplýsingar um hvað fósturráðstöfun felur í sér. Einstaklingar eru hvattir til að panta tíma fyrir upplýsingaviðtal á Barna- og fjölskyldustofu til að fá nánari fræðslu. Fósturforeldrar geta leitað ráðgjafar vegna barna sem þeir eru með í fóstri einnig geta þeir leitað til Barna- og fjölskyldustofu ef þeir eru ekki sáttir við vinnubrögð þeirra sem sáu um fósturráðstöfunina eða samskipti við þá.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica