SÓK-meðferð

Sálfræðiþjónusta fyrir börn vegna óviðeigandi kynhegðunar

Þjónustan er í höndum sálfræðinga sem sérhæfa sig á þessu sviði og hafa náið samstarf sín á milli. Þjónustan fer að meginhluta fram á sálfræðistofu þjónustuaðila en hver sálfræðingur vinnur þar sjálfstætt að hverju máli og sér um að boða barn og foreldra (forsjáraðila) til viðtals. Markmið með þjónustunni eru að styðja við barnið sem sýnt hefur hina óviðeigandi eða skaðlegu kynhegðun og draga úr neikvæðum afleiðingum hegðunarinnar fyrir barnið sjálft og minnka jafnframt líkur á því að hegðunin endurtaki sig. Einnig er forsjáraðilum barnsins, starfsmönnum barnaverndarþjónustu og starfsmönnum Barna- og fjölskyldustofu veitt fagleg ráðgjöf.

Gjald

Gert er ráð fyrir ákveðnu hóflegu gjaldi fyrir barnaverndarþjónustu vegna áhættumats og meðferðar og mun Barna- og fjölskyldustofa innheimta þann kostnað frá viðkomandi nefndum. Handleiðsla og ráðgjöf, sbr. kafli 2, er barnaverndarþjónustum að kostnaðarlausu. Barnaverndarþjónustur greiða ferðakostnað sálfræðinganna.

Handleiðsla og ráðgjöf

Hluti af þjónustunni er handleiðsla til starfsmanna barnaverndarþjónustu ef Barna- og fjölskyldustofa telur þörf á. Þetta getur átt við í vafamálum, til dæmis þegar enn stendur yfir könnun máls hjá barnaverndarþjónustu eða þar sem kynferðislega hegðunin er hluti af stærri og flóknari vanda. Í slíkum tilfellum útvegar Barna- og fjölskyldustofa 1-2 ráðgjafar- og handleiðslufundi fyrir starfsmann barnaverndarþjónustu með viðkomandi sálfræðingi og eftir aðstæðum getur verið um símafund að ræða. Þessir aðilar meta síðan þörf fyrir áframhald, þ.e. hvort málinu telst þar með lokið eða hvort ákveðið er að sækja um mat og meðferð.

Mat og meðferð

Mat og meðferð eru framkvæmd með viðurkenndum matstækjum og aðferðum á borð við hugræna atferlismeðferð. Matið byggir á viðtölum við hlutaðeigandi aðila og niðurstöðum úr sálfræðilegum prófum og öðru mati á hugsanlegum áhættuþáttum sem meðferðinni er síðan beint að. Einnig er byggt á öðrum gögnum svo sem skýrslum frá barnaverndarþjónustu, lögregluskýrslum eða geðheilbrigðis- eða þroskamati.

Mikilvægt er að forsjáraðilar barna veiti samþykki sitt fyrir þjónustunni og að öðrum kosti leiti barnaverndarþjónusta viðeigandi leiða samkvæmt barnaverndarlögum. Þjónustuaðili leggur áherslu á samstarf við starfsmenn barnaverndarþjónustu og eftir atvikum við aðra fagaðila eða stofnanir. Samvinna og stuðningur við forsjársaðila barnsins er lykilþáttur í þjónustunni.

Meðferðarvinnan snýr ávallt að því að draga úr líkum á frekari óviðeigandi kynhegðun og að barnið öðlist aukna færni til að sýna viðeigandi og félagsvæna hegðun. Umfang meðferðarvinnu er að öllu jöfnu háð vægi og samspili áhættu- og verndandi þátta.

Meðferð barna felur meðal annars í sér fræðslu um kynferðisleg mörk, áhrif og afleiðingar óviðeigandi kynhegðunar, fræðslu til forráðamanna um viðeigandi og óviðeigandi kynhegðun barna, fræðslu um kynferðisleg mörk. Unnið er markvisst að því að draga úr áhættuþáttum sem fram koma í matsferlinu og ýta undir styrkleika sem geta dregið úr líkum á frekari óviðeigandi eða skaðlegri kynhegðun. Meðferðartíminn er mismunandi eftir umfangi, aldri og þroska barns.

Lok meðferðar og eftirfylgd

Við lok meðferðar skilar sálfræðingur skýrslu til barnaverndarþjónustu og Barna- og fjölskyldustofu ásamt því að boða til skilafundar með starfsmanni barnaverndarþjónustu og forsjáraðilum. Á skilafundi er farið yfir niðurstöður mats og árangurs meðferðar. Skilafundur fer fram á sálfræðistofu þjónustuaðila þegar því verður komið við en eftir aðstæðum í heimabyggð barns. Þjónustuaðili sinnir eftirfylgd í málum þar sem þess er talið þörf. Jafnan er miðað við 3–4 eftirfylgdarviðtöl á u.þ.b. árstímabili. Í samráði við starfsmann barnaverndarþjónustu metur þjónustuaðili hvort árangur meðferðar verði betur tryggður með því að hluti eftirfylgdarviðtala fari fram í eða nálægt heimabyggð barns.

Ef upp kemur grunur um frekari óviðeigandi kynhegðun eftir að skilafundur hefur átt sér stað eða á meðan eftirfylgd stendur skal þjónustuaðili ráðleggja og vera í samráði við viðkomandi barnaverndarþjónustu og Barna- og fjölskyldustofu sem leggja sameiginlega mat á viðeigandi viðbrögð.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica