Tengiliður farsældar

Tengiliður þjónustu í þágu farsældar barna

Öll börn og foreldrar skulu hafa aðgang að tengilið þjónustu í þágu farsældar barns eftir því sem þörf krefur. Frá fæðingu og þar til barn hefur nám í leik- eða grunnskóla er tengiliður starfsmaður heilsugæslustöðvar eða heilbrigðisstofnunar í heilbrigðisumdæmi barns. Sama á við ef þörf er á samþættingu þjónustu á meðgöngu. Þegar barn er við nám í leik-, grunn- eða framhaldsskóla er tengiliður starfsmaður skólans þar sem barn er við nám. Ef það á ekki við er tengiliður starfsmaður félagsþjónustu þess sveitarfélags þar sem barn á lögheimili. Tengiliður skal hafa viðeigandi þekkingu á þjónustu í þágu farsældar barns. Hann má ekki vera tengdur barni eða foreldrum þess með þeim hætti sem mundi leiða til vanhæfis.

Tengiliður farsældar er:
starfsmaður í nærþjónustu / grunnþjónustu barns og fjölskyldu þess.
sá aðili sem styður við samþættingu fyrsta stigs þjónustu í þágu farsældar barns.
sá sem veitir fjölskyldunni upplýsingar um þjónustu, tryggir aðgang að frummati, styður við samþættingu þjónustu allra þjónustuveitenda og fylgir málum eftir á 2. og 3. stig ef þörf er á.

Grunnnámskeið tengiliða farsældar:

Grunnnamskeid-fyrir-tengilidi-farsaeldarHér er hægt að nálgast hlekk inn á Farsældarskóla Barna- og fjölskyldustofu. Þar er að finna ,,Grunnnámskeið fyrir tengiliði farsældar". Námskeiðið felur í sér grunnkynningu á farsældarlögunum og þar er fjallað ítarlega um hlutverk tengiliða farsældar. Einnig er farið yfir það hvar hlutverk tengiliðar farsældar endar og málstjóri tekur við ásamt leiðbeiningum um það hvert skuli leita eftir ráðgjöf.  Farsældarskólinn (teachable.com)

Hlutverk tengiliðar farsældar er:
að hafa hagsmuni barns að leiðarljósi.
að rækja hlutverk sitt í samstarfi og samráði við foreldra og barn.
að veita upplýsingar um þjónustu í þágu farsældar barns.
að aðstoða við að tryggja aðgang að frummati á þörfum barns.
að skipuleggja og fylgja eftir samþættingu fyrsta stigs þjónustu í þágu farsældar barns.
að koma upplýsingum til sveitarfélags um þörf fyrir tilnefningu málstjóra.
að taka þátt í starfi stuðningsteymis eftir því sem við á.

Tengiliður farsældar þarf að:
hafa þekkingu og yfirsýn yfir þá þjónustu sem er í boði í sveitarfélaginu/þjónustusvæðinu
vera í góðum tengslum við þau börn og foreldra sem hann þjónustar
eiga í góðum samskiptum við aðra þjónustuveitendur á svæðinu

Tengiliður farsældar getur leitað eftir ráðgjöf, stuðningi og handleiðslu til:

- Farsældarsviðs Barna- og fjölskyldustofu www@bofs.is
- Yfirmanna þess málaflokks sem viðkomandi tengiliður starfar fyrir.
- Þeirra sem annast innleiðingu samþættingar í sveitarfélaginu (t.d. farsældarteymi). 

Stigskipting þjónustu

Þjónustu við börn er skipt í þrjú stig í lögunum.
Fyrsta stig: Grunnþjónusta sem er aðgengileg öllum börnum. Snemmtækur stuðningur er veittur og fylgt eftir á markvissan hátt. Tengiliðir vinna mál barna á fyrsta stigi.
Dæmi: Ung- og smábarnavernd, leikskóli, grunnskóli, almenn heilbrigðisþjónusta ofl.

Annað stig: Einstaklingsbundinn og sérhæfðari stuðningur í samræmi við faglegt mat og/eða frumgreiningu á þörfum barns. Málstjórar vinna mál barna á öðru stigi.
Dæmi: Sérkennsla í skóla, einstaklingsbundinn stuðningur við barn, færniþjálfun ofl.

Þriðja stig: Einstaklingsbundinn og sérhæfðari stuðningur í samræmi við sérhæft og ítarlegt mat og/eða greiningu á þörfum barns. Málstjórar vinna mál barna á öðru og þriðja stigi.
Dæmi: Innlögn á sjúkrahús eða meðferðarstofnun, greining hjá sérfræðingum t.d. Ráðgjafar- og greiningarstöð, barnaverndarþjónusta ofl.
Leitast skal við að veita sérhæfðari stuðning á grundvelli stuðningsáætlunar um samþætta þjónustu og eftirfylgd. 

Þegar málum er vísað til 2. eða 3.stigs þjónustu getur tengiliður setið í stuðningsteymi ef það eru hagsmunir barns. Málstjóri stýrir stuðningsteymi. Þetta vefsvæði byggir á Eplica