SMT - skólafærni
Markmið SMT-skólafærni er að skapa gott andrúmsloft í skólum og tryggja öryggi og velferð nemenda og starfsfólks. Lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr óæskilegri hegðun nemenda með því að kenna og þjálfa félagsfærni, gefa jákvæðri hegðun gaum með markvissum hætti og samræma viðbrögð starfsfólks gagnvart nemendum sem sýna óæskilega hegðun. Þessi nálgun byggir á margra ára rannsóknum sérfræðinga, í Oregon í Bandaríkjunum, og er framkvæmd í samráði við þá.
SMT-skólafærni byggir á hugmyndafræði PMTO-FORELDRAFÆRNI og er framkvæmd undir merkjum þeirrar þjónustueiningar, sem verið hefur leiðandi hér á landi í notkun og útbreiðslu PMTO verkfæra til uppalenda. PMTO (Parent Management Training – Oregon aðferðin) verkfærin eru vel rannsökuð af færustu sérfræðingum, notkun þeirra stuðlar að góðri aðlögun barna og þau eru því afar mikilvæg hjálpartæki. Foreldrum býðst að tileinka sér PMTO- foreldrafærni jafnframt því sem skólasamfélagið á möguleika á innleiðingu SMT-skólafærni.
SMT-aðferðin
Rannsóknir hafa leitt í ljós að í hverjum skóla má gera ráð fyrir þrenns konar nemendum. „Venjulegum“ nemendum (85 til 90%), nemendum sem sýna fyrstu merki andfélagslegrar hegðunar og eiga á hættu að þróa með sér andfélagslegt hegðunarmynstur (7 til 10%) og nemendum sem þegar sýna töluverða andfélagslega hegðun og eru í mikilli áhættu vegna enn frekari vandamála í framtíðinni (3 til 5%). Gert er ráð fyrir því að brugðist sé við þessum þremur nemendahópum á mismunandi hátt og er áætlað að tvö til fjögur ár taki að innleiða þessi vinnubrögð í skólasamfélagið.
Framkvæmd
Á fyrsta ári er lögð áhersla á að styðja alla nemendur skólans.Reglur eru settar fram þannig að þær eru einfaldar, nákvæmar og vel ljóst til hvers er ætlast. Dæmi: Göngum hægra megin, notum innirödd, rusl í ruslafötur. Reglur eru hafðar sýnilegar, hengdar upp á veggi og kenndar með sýnikennslu, dæmum og æfingum.Hvatning er notuð á ýmsa vegu til að umbuna nemendum fyrir árangur, framfarir og það sem vel er gert. Mikil áhersla er á notkun félagslegrar hvatningar (hrós) og margir skólar hafa nýtt sér ýmis konar táknkerfi sem formlega leið hvatningar. Skýr mörk eru sett og skilgreind eru minni háttar og alvarlegri hegðunarfrávik. Vegna óæskilegrar hegðunar eru skilgreindar viðeigandi afleiðingar, þær eru breytilegar og ráðast af alvarleika hegðunar.
Á öðru ári er lögð áhersla á að styðja við afmarkaðan hóp nemenda – nemendur sem sýna fyrstu merki andfélagslegrar hegðunar. Áhersla er lögð á skipulag á afmörkuðum svæðum skólans eins og í skólastofu en það dregur verulega úr líkum á árekstrum. Nemendur fá kennslu og þjálfun í aðferðum eins og athyglismerki (merki sem er gefið þegar fanga þarf athygli nemenda) og einbeitingaleik (felst í því að kenna nemendum að hunsa truflun). Frekari stuðningur getur falist í endurmenntun (þar sem nemendur fá tækifæri til að æfa sig enn frekar í að fylgja reglunum) og almennt auknu aðhaldi. Aðferðir lausnaleitar eru innleiddar, þær kenna nemendum hvernig leysa má ágreining með skipulögðum og yfirveguðum hætti þannig að tillit sé tekið til sjónamiða allra sem að málinu koma og lausn fundin sem allir geta sæst á.
Á þriðja ári er lögð áhersla á að styðja við nemendur sem þegar sýna töluverða andfélagslega hegðun. Unnið er mjög markvisst að aukinni aðlögun þessara nemenda í samstarfi við foreldra og jafnvel stofnanir. Stuðlað er að viðeigandi PMTO-ráðgjöf fyrir foreldra, auk einstaklingsmiðaðra aðgerða í skóla. Nemandinn fær jafnframt enn þá markvissari kennslu og þjálfun í félagsfærni.