Fóstur
Tímabundið fóstur
Barni er komi í tímabundið fóstur þegar ætla má að unnt verði að bæta úr því ástandi sem var tilefni fóstursins innan takmarkaðs tíma þannig að það geti snúið heim að nýju. Þannig eru markmið ráðstöfunarinnar ólík því sem við á um varanlegt fóstur. Reglugerð um fóstur segir til um að tímabundið fóstur geti staðið að einu ári en lengur í undantekningartilvikum.
Varanlegt fóstur
Um varanlegt fóstur er að ræða þegar barni er komið í fóstur þar til það verður sjálfráða. Barni skal komið í varanlegt fóstur þegar aðstæður þess kalla á að það alist upp hjá öðrum en foreldrum sínum. Markmiðið með slíkri ráðstöfun er að tryggja fósturbarni viðeigandi uppeldisaðstæður og gefa því tækifæri á að mynda varanleg tengsl við fósturforeldra. Í aðdraganda að varanlegu fóstri er mælt fyrir um reynslutíma sem nefnt er reynslufóstur í reglugerð um fóstur.
Styrkt fóstur
Með styrktu fóstri er átt við sérstaka umönnun og þjálfun barns á fósturheimili í takmarkaðan tíma, að hámarki í tvö ár. Þessi ráðstöfun gerir ráð fyrir því að annað fósturforeldra a.m.k. sé í fullu starfi við að sinna því verkefni. Barni skal komið í styrkt fóstur þegar það stríðir við verulega hegðunarerfiðleika vegna geðrænna, tilfinningarlegra og annarra vandamál af því tagi og nauðsynlegt þykir að koma barninu í fóstur í stað þess að vista það á meðferðarheimili eða stofnun. Umgjörð styrkts fósturs skal gera fósturforeldrum kleift að vinna að því að mæta sérstökum þörfum barns. Tilgangur þess er að aðstoða barn við að ná tökum á vanda sínum og auka hæfni þess á sem flestum sviðum.