Hlutverk Barna- og fjölskyldustofu

Barna- og fjölskyldustofa er ríkisstofnun sem heyrir undir mennta- og barnamálaráðherra og starfar á grundvelli laga nr. 87/2021. Stofan hefur víðtækt hlutverk og sinnir verkefnum sem tengjast þjónustu í þágu barna á grundvelli ýmissa laga, t.a.m. barnaverndarlaga og laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Markmið Barna- og fjölskyldustofu er að vinna að velferð barna. Meginhlutverk stofnunarinnar er að veita og styðja við þjónustu í þágu barna og stuðla að gæðaþróun í samræmi við bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma. Barna- og fjölskyldustofa þjónar landinu öllu.

Verkefni Barna- og fjölskyldustofu eru m.a.:
1. Almenn og sérhæfð fræðsla til stjórnvalda og annarra.
2. Útgáfa leiðbeininga, gátlista og annars stuðningsefnis.
3. Leiðbeiningar og ráðgjöf um vinnslu einstakra mála.
4. Þróun og innleiðing gagnreyndra aðferða og úrræða í þágu barna.
5. Uppbygging og yfirstjórn heimila, stofnana og sérhæfðra úrræða fyrir börn.
6. Fræðilegar rannsóknir sem þjóna markmiðum laga þessara og stuðningur við þróunar- og rannsóknarstarf.
7. Vinnsla upplýsinga, þ.m.t. söfnun og skráahald.
8. Önnur verkefni sem er kveðið á um í lögum eða eru falin stofnuninni samkvæmt ákvörðun ráðherra.

Verkefni Barna- og fjölskyldustofu skv. barnaverndarlögum eru m.a. að:
1. Vinna að samhæfingu og eflingu barnaverndarstarfs í landinu, m.a. með því að stuðla að samþættingu barnaverndarstarfs og annarrar þjónustu í þágu barna,
2. Veita barnaverndarþjónustum leiðbeiningar og ráðgjöf um framkvæmd barnaverndarlaga og vinnslu einstakra mála,
3. Stuðla að því að vinnsla barnaverndarmála sé í samræmi við lög, reglugerðir og leiðbeiningar,
4. Veita barnaverndarþjónustum liðsinni í fósturmálum skv. XII. kafla,
5. Fara með yfirstjórn heimila og stofnana sem ríkinu ber að sjá til að séu tiltæk skv. XIII. kafla og hlutast til um að slík heimili og stofnanir verði sett á fót,
6. Hafa yfirumsjón með vistun barna á heimilum og stofnunum, sbr. e-lið.
7.Fara með yfirstjórn barnahúsa og hlutast til um að þau verði sett á fót eftir því sem þörf krefur.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica