MST

Fjölkerfameðferð

MST er meðferðarúrræði á vegum Barna- og fjölskyldustofu fyrir fjölskyldur barna á aldrinum 12-18 ára sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda. Meðferðin felst fyrst og fremst í að auka færni foreldra til að takast á við vanda barna sinna. Hegðunarvandi barnanna birtist í afskiptum lögreglu, erfiðleikum í skóla, ofbeldi og vímuefnanotkun. MST tekur 3-5 mánuði sem er að öllu jöfnu hámarkslengd. Þjónustusvæði MST spannar allt landið.

Heildarmarkmið MST eru:

  • að barn búi heima hjá sér
  • stundi skóla eða vinnu
  • komist ekki í kast við lögin
  • noti ekki vímuefni
  • beiti ekki ofbeldi eða hótunum

Ef þú telur þig þurfa MST meðferð þarftu að snúa þér til næstu barnaverndarnefndar sem metur þörfina með þér og getur sótt um MST meðferð til Barna- og fjölskyldustofu.  Hegðunarvandinn getur komið fram á sviðum eins og lögregluafskiptum, skrópum eða verulegum erfiðleikum í skóla, líkamlegu ofbeldi eða hótunum, eða vímuefnanotkun.
Meðferðin fer fram á heimili fjölskyldunnar og gerir þá kröfu að barnið búi á heimilinu.

Meðferðin

MST snýr að öllu nærumhverfi barnsins: foreldrum, fjölskyldu, félagahópi, skóla og tómstundum. Sérhæfður meðferðaraðili (MST-þerapisti) hittir foreldra, og eftir aðstæðum barn, á heimili þeirra eftir samkomulagi. Foreldrar hafa jafnframt aðgengi að þerapista til ráðgjafar í síma allan sólarhringinn. Almennt er stefnt að því að bæta samskipti og samheldni innan fjölskyldunnar, tengsl og samráð foreldra og skóla og annarra lykilaðila í umhverfi barnsins.

Aðlögun að þörfum hverrar fjölskyldu

Í sameiningu eru sett skýr meðferðarmarkmið sem taka mið af vanda hvers barns, hvernig megi draga úr vandanum og efla bjargráð foreldra.
Meðferðin er aðlöguð að þörfum hverrar fjölskyldu. Áhersla er lögð á að finna leiðir sem henta styrkleikum einstaklinga og í umhverfinu.
Markmiðin og leiðirnar að þeim eru metin frá einni viku til annarrar og að hve miklu leyti markmiðum er náð.

Gæðaeftirlit og árangursmat

MST aðferðin hefur verið þróuð út frá rannsóknum á því hvað virkar í meðferð hegðunarvanda. Þerapistar og teymisstjórar fá reglulega þjálfun í aðferðum MST. Reglulega er kannað með aðstoð matslista hvort þeir halda sig við aðferðir MST. Teymisstjóri veitir þerapistum vikulega faghandleiðslu í samráði við utanaðkomandi MST sérfræðing. Þar fer fram greining á framgangi meðferðar og meðferðarinngripum.
Einstaklingsbundin markmið geta verið mismunandi en endurspeglast með einum eða öðrum hætti í heildarmarkmiðum: að barnið geti búið heima, stundi skóla eða vinnu, komist ekki í kast við lögin, noti ekki vímuefni eða beiti ekki ofbeldi eða hótunum. Árangur af meðferðinni er metinn miðað við stöðu heildarmarkmiða í byrjun meðferðar og þegar henni lýkur en einnig eftir 6, 12 og 18 mánuði. 

Hér má nálgast nánari upplýsingar um MST aðferðina

Hlaðvarp Barna- og fjölskyldustofu, viðtal við teymisstjóra MST


Kynning á MST

Kynningarblað MST

Kynning og árangur MST

Kynning á skólavinnu í MST

Kynning á kerfavinnu í MST

Kynning á eftirfylgd í  MST vegna 10 ára afmælis MST á Íslandi

Upptaka frá afmælisþingi MST

Kynning á CM vímuefnameðferð í MST

International Succeess Guide 2021

Hér má skoða heimasíðu hjá MST Services

Hér má skoða heimasíðu MST í Noregi


Þetta vefsvæði byggir á Eplica