• Fólk á hjóli

Að gerast fósturforeldri

Hefur þú áhuga á að gerast fósturforeldri?

Ég óska eftir frekari upplýsingum


Til að fyrirbyggja ruslpóst:

Hvar fæ ég nánari upplýsingar og hvernig sæki ég um?

Þeir sem óska eftir að taka barn í fóstur geta haft samband við Barna- og  fjölskyldustofu til að fá nánari upplýsingar. Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála veitir leyfi og skal sækja um til þeirra. Nánari upplýsingar á heimasíðunni gev.is.

Hverjir geta orðið fósturforeldrar?

Mismunandi börn þurfa mismunandi fósturheimili, þess vegna geta mismunandi fjölskyldur og einstaklingar sótt um, giftir, ógiftir, sambýlisfólk, einstæðir, gagnkynhneigðir og samkynhneigðir svo við nefnum nokkra. Allir þurfa bæði að fá almennt samþykki til að verða fósturforeldri og einnig að verða samþykktir sérstaklega fyrri viðkomandi fósturbarn þegar að því kemur. Fósturforeldrar þurfa að geta veitt barni trygga umönnun og öryggi og mætt þörfum barns sem búið hefur við ótryggar aðstæður eða átt við erfiðleika að etja. Fósturforeldrar þurfa að vera við góða almenna heilsu, búa við stöðugleika auk fjárhagslegs og félagslegs öryggis sem stuðlað getur að jákvæðum þroska barns. Ekki er skilyrði að umsækjandi sé í sambúð eða hjónabandi en hjón eða sambúðarfólk skulu sækja um leyfi saman. Þeim sem brotið hafa gegn ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga um kynferðisbrot er óheimilt að taka barn í fóstur.

Hvernig er að vera fósturforeldri?

Sem fósturforeldri ertu þátttakandi í því  að gefa barni þær öruggu aðstæður sem börn þarfnast. Börn í fóstri eru mismunandi, bæði í aldri og persónuleika og þurfa mismunandi utanumhald. Mörg þeirra eiga það sameiginlegt að hafa upplifað erfiða hluti. Að vera fósturforeldri getur verið krefjandi en getur líka verið gríðarlega gefandi. Það er mikil breyting bæði fyrir barnið og fjölskylduna að byrja að kynnast hvert öðru og takast saman á við hversdagsleikann. Stundum er þörf á því að amk annað fósturforeldrið taki sér frí frá vinnu þegar fósturbarnið flytur inn á heimilið. En oftast gengur það svo vel að báðir vinni úti.  

Eru til mismunandi útgáfur af fóstri?

  • Tímabundið fóstur: vistunin getur verið í allt að eitt ár en má framlengja í tvö ár. Þegar börn eru í tímabundnu fóstri er oftast stefnt að því að þau fari aftur heim til foreldra að fóstri loknu. Umgengni við kynforeldra er mikil og er oftast aukin þegar nær dregur fósturlokum. 
  • Varanlegt fóstur: fóstrinu er ætlað að vara fram að því að barnið verður 18 ára og er þá ekki ætlunin að barnið fari aftur heim til kynforeldra. Umgengni við foreldra er mikið minni en í tímabundnu fóstri.  
  • Styrkt fóstur: þá þarf barnið sérstaka umönnun og þjálfun á fósturheimilnu í takmarkaðan tíma, að hámarki tvö ár. Gjarnan er um að ræða börn sem eiga við mikinn tilfinninga- og hegðunarvanda að etja. Gert er ráð fyrir því að annað fósturforeldra sé í "fullu starfi" við umönnun barnsins. 

Hverjar eru greiðslur, skyldur og réttindi fósturforeldra?

  • Framfærslueyrir: til að standa straum af öllum almennum kostnaði sem felst í því að hafa barn, svo sem  aðstöðu á heimili, mat, endurnýjun á fatnaði, almennri læknisþjónustu, daglegum ferðalögum, mötuneytiskostnaði í skóla, venjubundnum útbúnaði í skóla og almennum tómstundum. Framfærslueyrir vegna barns í fóstri skal nema þreföldum barnalífeyri (meðlög).
  • Fósturlaun: greiðast vegna barna í tímabundnu og styrktu fóstri og einungis í undantekningartilvikum vegna barna í varanlegu fóstri. Lágmark fósturlauna tekur mið af aldri barns á hverjum tíma og skal ekki nema lægri fjárhæð en: Þreföldum barnalífeyri vegna barna 0-6 ára, fjórföldum vegna barna 6-12 ára og fimmföldum vegna barna 12 ára og eldri. Fósturlaun skulu að jafnaði ekki nema meira en tíföldum barnalífeyri.
  • Annar fyrirsjáanlegur kostnaður: kostnaður sem fyrirsjáanlegt er að verði um að ræða á meðan fóstur varir, svo sem greiðslu vasapeninga, ferðakostnað vegna umgengni barns við nákomna, kostnað við leikskóla eða aðra gæslu, sérstakan námskostnað eða mikinn kostnað vegna tómstunda, kostnað vegna ferminga, útgjöld vegna meiri háttar tannlækninga eða umtalsverðrar heilbrigðisþjónustu, svo sem vegna alvarlegra eða langvarandi sjúkdóma, og umtalsverðan ferðakostnað í tengslum við nauðsynlega þjónustu sem barn þarf að sækja, svo sem heilbrigðisþjónustu.
  • Ófyrirsjánlegur kostnaður: allur kostnaður vegna fóstursins sem ekki var fyrirsjáanlegt að yrði um að ræða þegar fóstursamningur var gerður, svo sem sérstakan námskostnað eða verulegan kostnað vegna tómstunda eða tannlækninga, eða umtalsverða heilbrigðisþjónustu og umtalsverðan ferðakostnað í tengslum við nauðsynlega þjónustu sem barn þarf að sækja, svo sem heilbrigðisþjónustu.
  • Greiðslu í styrktu fóstri: Ef Barna- og fjölskyldustofa samþykkir að barn fari í styrkt fóstur þá greiða barnaverndarnefnd sem ráðstafar barninu og Barna- og fjölskyldustofa að jafnaði framfærslueyri og fósturlaun sem samsvara allt að átjánföldum barnalífeyri. 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica