Meðferðarheimili

Stuðlar, Fossaleyni 17, Reykjavík. Sími: 530-8800.

Forstöðumaður: Úlfur Einarsson
Netfang: ulfur.einarsson@studlar.is

Stuðlar, meðferðarstöð ríkisins fyrir börn og unglinga frá 12 til 18 ára, skiptist í þrjár deildir, neyðarvistun Stuðla, meðferðardeild Stuðla og stuðningsheimilið Fannafold.  

Stuðlar standa fyrir umhyggju, öryggi, virðingu og vöxt. Leitast er við að sýna hverjum skjólstæðingi vinalegt viðmót og nærgætni. Hlúð er að sjálfsvirðingu hvers og eins með því að leggja ríka áherslu á virðingu fyrir sérkennum og því sameiginlega í fari okkar. Hér skiptir einnig máli að skipulega er unnið að því að grípa tækifæri til að vaxa og dafna þar sem frelsi og ábyrgð haldast í hendur.

Allir starfsmenn Stuðla eru þjálfaðir í áhugahvetjandi samtalsaðferð (MI), stöðustyrkjandi viðmóti og félgasfærni- og sjálfsstjórnaraðferð (ART).

Meðferðardeild:
Deildarstjóri: Sigríður Ólafsdóttir
Netfang: sigridur.olafsdottir@studlar.is

Á meðferðardeild eru rými fyrir sex ungmenni í senn. Almennt er gert ráð fyrir að meðferð standi yfir í um átta til tólf vikur þó hvert mál sé metið sjálfstætt. Í meðferðinni er stuðst við reglubundna dagskrá og atferlismótandi þrepa- og stigakerfi. Að öðru leyti er meðferðin löguð að þörfum hvers og eins.

Greining og meðferð haldast í hendur í einstaklings- og fjölskylduviðtölum, sálfræðiathugunum og úrvinnslu upplýsinga frá meðferðaraðilum og skóla. Skoðaðar eru aðferðir barns í samskiptum, líðan og viðhorf til eigin stöðu sem og bjargráð í fjölskyldu. Í meðferðinni er reynt að auka félagsfærni, sjálfstjórn og hæfni til að nýta eigin styrkleika. Daglega er farið í útivist, tómstundir eða íþróttir. Skólanám er á vegum Brúarskóla og fer fram á Stuðlum.

Foreldrar eru í samskiptum við börn sín í meðferðarviðtölum, á heimsóknartímum og í helgarleyfum þar sem reynir á að yfirfæra meðferðarárangur á heimaslóðir. Áður en ungmenni útskrifast af meðferðardeild byrjar það að aðlagast sínu fyrra umhverfi og stunda heimaskóla ef hægt er. Í vissum tilfellum kann að vera æskilegt fyrir skjólstæðing að fara í framhaldi á langtímameðferðarheimilið Lækjarbakka, stuðningsheimilið Fannafold eða í fóstur. Er það metið í samráði við hlutaðeigandi.

Við lok meðferðar stendur skjólstæðingum til boða sex mánaða eftirfylgd frá stoðteymi Stuðla. Í henni er boðið uppá ráðleggingar sálfræðings til skjólstæðings og forráðamanna, auk ráðgjafar í skóla- atvinnu- og tómstundamálum frá sérfræðingum í þessum málaflokkum.

Neyðarvistun:
Deildarstjóri: Dagný Gunnarsdóttir
Netfang: dagny.gunnarsdottir@studlar.is 

Neyðarvistun Stuðla er bráðaúrræði fyrir börn og unglinga á aldrinum 12 til 18 ára. Hámarksvistunartími er fjórtán sólahringar. Markmið er að hafa vistunartíma ekki lengri en þörf krefur. Einungis barnaverndarnefndir hafa heimild til að vista á neyðarvistun.

Í starfsemi neyðarvistunar er lögð áhersla á umhyggju fyrir skjólstæðingum og að tryggja öryggi þeirra. Starfsmenn neyðarvistunar leitast við að sýna vinalegt viðmót og gera vistina eins góða og aðstæður leyfa.

Verkferlar á neyðarvistun

Stuðningsheimili Stuðla:
Deildarstjóri: Dagný Gunnarsdóttir.
Netfang: dagny.gunnarsdóttir@studlar.is

Stuðningsheimili stuðla stendur þeim ungmennum til boða sem hafa farið í meðferð á Stuðlum, og í önnur úrræði, en þurfa að þeim loknum á frekari stuðningi að halda sem ekki er rými til að veita þeim heima fyrir.

Lögð er áhersla á að byggja þau frekar upp til sjálfstæðis og samfélagslegrar virkni. Á heimilinu er aðstaða fyrir þrjú ungmenni samtímis. Starfsemin miðast við að þau sæki vinnu og/eða skóla og stundi tómstundir reglubundið. Þau læra einnig að taka þátt í daglegum heimilisstörfum og bera ábyrgð á þeim skyldum sem þar falla til.

Að lokinni dvöl er metið í samráði við hlutaðeigandi hvaða leiðir standi viðkomandi ungmenni til boða varðandi búsetu, atvinnu, skóla og tómstundir.

Meðferðarheimilið Lækjarbakki:
Forstöðumaður: Dögg Þrastardóttir.
Netfang: dogg.thrastardottir@bofs.is

Lækjarbakki er langtímameðferðarheimili á Rangárvöllum í Rangárvallasýslu. Þar er hægt að vista allt að sex skjólstæðinga hverju sinni. Við innskrift á Lækjarbakka er að jafnaði gert ráð fyrir um sex mánaða vistunartíma þó hvert mál sé metið sjálfstætt. Áður en kemur að vist á Lækjarbakka skulu skjólstæðingar hafa lokið meðferð á meðferðardeild Stuðla.

Á Lækjarbakka er sérstök áhersla lögð á virkni skjólstæðinga í tómstundum, skóla og/eða vinnu. Hér er bæði átt við á meðferðarheimilinu sjálfu og lengra til þegar skjólstæðingar eru álitnir undir það búnir. Að loknum vistunartíma er hugmyndin að skjólstæðingar verði færari að takast á við áskoranir hefðbundins lífs.

Rétt er að taka fram að við lok meðferðar á Lækjarbakka stendur skjólstæðingum til boða sex mánaða eftirfylgd frá stoðteymi Stuðla. Í henni er boðið uppá ráðleggingar sálfræðings til skjólstæðings og forráðamanna, auk ráðgjafar í skóla- atvinnu- og tómstundamálum frá sérfræðingum í þessum málaflokkum.

Meðferðarheimilið Bjargey:
Laugalandsskóli, 605 Akureyri
Sími:4613910
Forstöðumaður: Ólína Freysteinsdóttir
Netfang:  olina.freysteinsdottir@bofs.is  

Meðferðarheimilið er ríkisrekið langtímameðferðarheimili ætlað stúlkum og kynsegin. Meginmarkmið meðferðarheimilisins er að veita sérhæfða meðferð vegna alvarlegra hegðunarerfiðleika, vímuefnaneyslu og meintra afbrota. Á heimilinu geta dvalið 4-5 einstaklingar hverju sinni. Lögð er áhersla á að búa þeim einstaklingum sem þar dvelja öruggt skjól og meðferð við hæfi.

Á meðferðarheimilinu verður leitast við að þeir einstaklingar sem eru í meðferð fái tækifæri til að vaxa og dafna í heilbrigðu umhverfi. Áhersla er lögð á einstaklingsmiðaða nálgun og miðar að þörfum unglinga sem eiga við alvarlegan hegðunarvanda að stríða. Stuðst er við aðferðir sem byggja á atferlismótun, hugrænni atferlismeðferð, áfallamiðuðum stuðningi, þjálfun í félagsfærni, sjálfsstjórn og félagsvænum viðhorfum. Unnið er í nánu samstarfi við aðstandendur þar sem meginmarkmiðið er að aðlaga einstakling aftur heim til forsjáraðila. 

 

Verklag þvingunar

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica