Fréttir


Kynning og kennsla í “fjölskyldusamráði”, nýrri aðferð í barnaverndarmálum

13.9.2004

Fjölskyldusamráð (family group conferences) er ákveðin vinnuaðferð í barnaverndarmálum og á uppruna sinn á Nýja- Sjálandi og hefur verið notað í USA, á Norðurlöndunum og víðar um all nokkurt skeið. Aðferðin byggist á því að leita lausna fyrir barnið innan fjölskyldunnar með aðstoð fagaðila í stað þess að vista barn utan heimilis. Fjölskyldan er gerð ábyrg fyrir lausn vandans og leitað er að styrk innan stórfjölskyldunnar/nærumhverfisins. Reynsla þeirra sem lært hafa þessa aðferð og nota hana er að með því að sameina krafta stórfjölskyldunnar styrkist staða barnsins og lausnir sem finnast henta þörfum þess fyrir umönnun og öryggi. Þeir sem vilja kynna sér fjölskyldusamráð og reynsluna er bent á greinina “The Family Group Conference – 10 years on” eftir Mike Doolan hjá Children, Young Persons and Their Families Agency, New Zealand. (http://www.iirp.org/library/vt/vt_doolan.html)

Í starfsáætlun Félagsþjónustunnar í Reykjavík árið 2004 var það sett að markmiði að þróa fjölskyldusamráð sem vinnuaðferð hér á landi. Sótt hefur verið um fjármagn til norrænu ráðherranefndarinnar til áframhaldandi þróunar og rannsókna þessa úrræðis á Norðurlöndunum og á Ísland aðild að umsókninni. Skipaður var stýrihópur verkefnisins hérlendis með fulltrúum Félagsþjónustunnar í Reykjavík, Barnaverndarstofu og Háskóla Íslands. Freydís Freysteinsdóttir lektor í félagsráðgjöf stýrir rannsóknarverkefninu fyrir Íslands hönd.
Námskeiðið nú er styrkt af Barnaverndarstofa

Til að kenna þessa vinnuaðferð koma Mats Erkers og Eva Näslund frá Svíþjóð dagana 20 - 23. september og halda námskeið, þau hafa bæði mikla reynslu af kennslu á þessu sviði. Fyrstu tveir dagarnir eru kynning á þessari vinnuaðferð fyrir starfsmenn barnaverndar sem fengju grunnþekkingu á henni.Tveir síðari dagarnir eru sérstaklega sniðnir að þörfum samhæfingaraðilanna (co-ordinators), sem þyrftu helst að vera tveir úr hverju sveitarfélagi. "Co-ordinator" er sá aðili hjá sveitarfélaginu sem tekur að sér hlutverk milligöngumanns og samhæfingaraðila og er í lykilhlutverki í þessari vinnuaðferð. Fyrsta daginn eru stjórnmálamenn (barnaverndarnefnd og félagsmálaráð) og stjórnendur velkomnir og hvattir til að koma og kynnast þessari vinnuaðferð.

Námskeiðið verður haldið í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi, Gerðubergi 3-5.
Námskeiðið er þríþætt eins og komið hefur fram.
1) Kynning fyrir stjórnmálamenn og stjórnendur, kl. 9-12, mánudaginn 20/9, verð er kr. 3000. Námskeiðsgögn og kaffi innifalið.
2) Námskeið fyrir starfsmenn, mánudaginn 20/9 og þriðjudaginn 21/9 kl. 9-16, verð kr. 15.000. Námskeiðsgögn, morgunkaffi, hádegisverður og síðdegiskaffi báða dagana innifalið.
3) Námskeið fyrir "co-ordinators" miðvikudaginn 22/9 og fimmtudaginn 23/9, verð fer eftir fjölda þátttakenda. Námskeiðsgögn, morgunkaffi, hádegisverður og síðdegiskaffi báða dagana innifalið.

Vakin er athygli á því að mikilvægt er að þjálfa upp "co-ordinators" eða samhæfingaraðila og gætu nokkur sveitarfélög tekið sig saman um einn aðila. Eins og kom fram í fyrra bréfi þá þarf sá aðili ekki að vera starfsmaður félagsþjónustu eða barnaverndar og getur t.d. verið aðili sem er ráðinn til sveitarfélgsins í þetta afmarkaða verkefni.

Vinsamlega tilkynnið þátttöku til Valgerðar/Valdísar á skrifstofu félagsmálastjóra í Reykjavík í síma 535 3037, eða í tölvupósti valgerdurs@fel.rvk.is eða valdisg@fel.rvk.is

Þetta vefsvæði byggir á Eplica