Hvernig hefur börnum vegnað í meðferð?

Undirtitill Kynning á niðurstöðum könnunar á afdrifum, velferð og líðan barna sem dvöldu á níu meðferðarheimilum Barnaverndarstofu og Stuðlum á árunum 2000-2007

5 okt. 2012

Áhugaverðar niðurstöður koma fram í könnun sem gerð var um afdrif, velferð og líðan barna sem dvöldu á níu meðferðarheimilum Barnaverndarstofu og Stuðlum á árunum 2000 – 2007. Meðferðarheimilin voru Hvítárbakki, Árbót, Berg, Laugaland, Geldingalækur, Háholt, Torfastaðir, Jökuldalur og Götusmiðjan. Öll heimilin, fyrir utan Stuðla, voru rekin á grundvelli þjónustusamninga við Barnaverndarstofu. Tvö þeirra, Laugaland og Háholt auk Stuðla, eru starfrækt í dag.

Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd (RBF) vann afdrifakönnunina fyrir Barnaverndarstofu og kynnti niðurstöður í Háskóla Íslands í dag 5. október 2012. Um var að ræða símakönnun sem gerð var í tveimur hlutum á árunum 2010 og 2011. Af 545 einstaklingum sem dvöldu í meðferð á tímabilinu 2000-2007 svöruðu 293 einstaklingar könnuninni. Foreldrar voru einnig spurðir og svöruðu 332. Hér má nálgast skýrslu með niðurstöðum og nánari upplýsingum um framkvæmd.

Sú reynsla sem börn og foreldrar miðla af meðferðarheimilunum má almennt teljast jákvæð en 65% foreldra og 59% barna fannst meðferðin hjálpa þeim mjög vel eða vel að takast á við þann vanda sem barnið glímdi við. 90% barnanna sögðust hafa náð góðu sambandi við að minnsta kosti einn starfsmann meðan á dvölinni stóð. Þátttaka á vinnumarkaði og skólaganga í dag er heldur lakari en meðal jafnaldra en margir þátttakenda í könnuninni glímdu við alvarlegan náms- og skólavanda í grunnskóla sem var hluti þess hegðunarvanda sem leiddi til vistunar á stofnun. Aðeins tæpur fjórðungur eða 23% nutu eftirmeðferðar eða skipulagðar eftirfylgdar í kjölfar vistunar á meðferðarheimili. Tæpur helmingur hefur leitað sér aðstoðar vegna áfengis og vímuefnavanda eftir að meðferð lauk og rúmur helmingur vegna tilfinningalegra og geðrænna erfiðleika. Um 41% drengja og 18% stúlkna segjast hafa setið í gæsluvarðhaldi eða fangelsi sem er mjög há tala og því líklegt að hér hafi svarendur einnig vísað í fleiri tegundir lögregluafskipta, svo sem handtökur.

Miðað við erlendar rannsóknir á meðferð barna með alvarlegan hegðunar- og vímuefnavanda koma þessar tölur ekki á óvart þar sem bakslög eru mjög algeng. Því verður að teljast bæði eðlilegt og jákvætt að fólk leiti sér aðstoðar síðar. Það er hins vegar augljós annmarki á þjónustu við þennan hóp að miða meðferðarinngrip fyrst og fremst við vistun á stofnun með lítilli eftirmeðferð en á þeim tíma sem könnun tekur til var eftirmeðferð ekki alltaf hluti af starfsemi meðferðarheimilis. Þess vegna hefur Barnaverndarstofa lagt áherslu á meðferð á heimavelli með innleiðingu fjölkerfameðferðar (MST) á árinu 2008, sem eykur möguleika á stigskiptri meðferð á heimavelli fyrir eða eftir stofnanameðferð ef því er að skipta.

Upplýsingar um ofbeldi á meðferðarheimilum valda áhyggjum en 14% barnanna segjast hafa orðið fyrir ofbeldi af hendi starfsmanns og um 20% af hendi annarra barna í meðferðinni. Upplýsingar um svo hátt hlutfall hafa ekki komið fram áður; skýrar verklagsreglur gilda á meðferðarheimilum, börn hafa getað kvartað eftir skilgreindum leiðum og reglubundið eftirlit hefur verið haft með meðferðarheimilum og rætt við börnin sem þar eru vistuð. Þegar spurt var hvort það sem gerðist geti hafa verið hluti af tilraun starfsmanns til að stöðva ofbeldi eða aðra óæskilega hegðun segjast um 70% barnanna svo vera. Þannig má telja líklegt að hluti barnanna vísi í upplifun sína af ofbeldi þegar starfsmenn framfylgdu verklagsreglum um viðbrögð við ofbeldi eða annarri óæskilegri hegðun. Ekki er þó hægt að útiloka að hér komi einnig fram upplýsingar um atvik þegar eitthvað í viðbrögðum starfsmanna hefur farið úrskeiðis, svo sem á erfiðum tímabilum í meðferðinni, enda eru tölur um ofbeldi hærri á þeim heimilum þar sem börn voru vistuð vegna ofbeldishegðunar og í lengri tíma. Hafa ber í huga að starfsmenn meðferðarheimila hafa það krefjandi verkefni að telja börnum hughvarf sem vilja yfirgefa staðinn og halda aftur af þeim ef þau eru líkleg að fara sér að voða vegna eigin ástands eða hættu í umhverfinu. Á sumum heimilum komu hins vegar litlar eða engar upplýsingar fram um ofbeldi, einkum þar sem börnunum var frjálst að fara eða hægt var að vísa þeim úr meðferð. Barnaverndarstofa mun senda öllum þeim 545 einstaklingum sem dvöldu á meðferðarheimilunum á þessum tíma, bréf þar sem þeim er boðið að koma í könnunarviðtal hjá sérfræðingi til að skoða um hvers konar ofbeldi var að ræða og hvar það fór fram.

Nýjustu fréttir

Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

02. feb. 2024 : Framhaldsnámskeið ætlað tengiliðum farsældar

Nú hefur verið opnað fyrir framhaldsnámskeið sem ætlað er tengiliðum farsældar.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica