Umsóknum um meðferðarúrræði fjölgar

17 ágú. 2022

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman helstu tölur varðandi úrræði á þeirra vegum fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa tók til starfa.

Barna- og fjölskyldustofa hefur nú tekið saman helstu tölur varðandi úrræði á þeirra vegum fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins sem og þær tilkynningar sem hafa borist nefndum á sama tímabili, og borið saman við tölur fyrri ára.

Umsóknum um meðferðarúrræði fjölgar og fósturheimilum fækkar

Umsóknum um meðferðarúrræði á vegum Barna- og fjölskyldustofu fjölgaði á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022 miðað við sama tímabil árið á undan. Flestar umsóknir bárust um MST og voru heldur fleiri en árið áður. Beiðnum til Barna- og fjölskyldustofu um fósturheimili fækkaði á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022 en beiðnum um varanlegt fóstur fækkaði mest á milli ára, úr 13 í 2 umsóknir. Umsóknum um leyfi til að gerast fósturforeldrar voru heldur einni færri á tímabilinu janúar til mars 2022 miðað við sama tímabil árið 2021, eða 13 samanborið við 14.

Vistunum á lokaðri deild á Stuðlum, fyrstu þrjá mánuði ársins 2022 fjölgaði samanborið við sama tímabil 2021 en voru þó færri en árin þar á undan. Vistunardögum fjölgaði að sama skapi samanborið við fyrstu 3 mánuði ársins 2021 en voru þó færri en á árunum 2019 og 2020.

Könnunarviðtölum í Barnahúsi fjölgar

Rannsóknarviðtöl, sem skiptast annars vegar í skýrslutökur fyrir dómi og hins vegar í könnunarviðtöl fyrir barnaverndarnefndir, fækkaði á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022 samanborið við sama tímabil árið á undan. Ef borið er við sama tímabil árið 2020 má sjá að fjöldi rannsóknarviðtala er svipaður, 102 á fyrstu þremur mánuðum 2022 og 95 á sama tímabili 2020.

Skýrslutökur fyrir dómi voru 54 á fyrstu þremur mánuðum ársins, rúmlega helmingur af því sem var á sama tímabili árið 2021 en 15,6% færri en árið 2020. Könnunarviðtölum fyrir barnaverndarnefndir fjölgaði töluvert á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022 samanborið við sama tímabil árin á undan. Í janúar fram í mars 2022 voru könnunarviðtöl fyrir barnaverndarnefndir 48 samanborið við 25-31 á sama tímabili áranna 2019-2021. Þar af voru 7 könnunarviðtöl við fylgdarlaus börn sem er meira en allt árið 2019, allt árið 2020 og allt árið 2021.

Skýrslutökur varða annars vegar kynferðisofbeldi eða hins vegar líkamlegt- og heimilisofbeldi. Flestar skýrslutökur voru vegna kynferðisofbeldis en þó má greina fækkun á milli ára, eða 46 í janúar fram í mars 2022 samanborið við 67 á sama tímabili 2021. Þá má nefna að skýrslutökur vegna kynferðisofbeldis voru 13 og 26 á fyrstu þremur mánuðum áranna 2019 og 2020 svo fjöldi slíkra skýrslutaka árið 2022 er í hærra lagi.

Tilkynningum til barnaverndarnefnda fækkaði

Tilkynningum til barnaverndarnefnda fækkaði á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022 um rúm 11% miðað við sama tímabil árið 2021 en voru þó fleiri en árið 2020.

Líkt og árin á undan voru flestar tilkynningar vegna vanrækslu. Næst flestar tilkynningar voru vegna ofbeldis og þá næst áhættuhegðunar barna. Hlutfall tilkynninga þar sem að heilsu eða lífi ófædds barns var stefnt í hættu var um 0,5% á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022 sem er lægra hlutfall en síðustu ár.

15,5% tilkynninga um kynferðisofbeldi vegna stafræns kynferðisofbeldis

Barna- og fjölskyldustofa hefur frá áramótum bætt skráningu til að skilja eðli tilkynninga til barnaverndarnefnda betur. Má þar nefna skráningu hvort tilkynningar vegna ofbeldis séu að berast vegna ofbeldis af hendi náins aðila, svo sem foreldra eða systkina.

Á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022 má til dæmis sjá að 52,7% tilkynninga vegna tilfinningalegs ofbeldis vörðuðu ofbeldi af hálfu náins aðila. Þá má nefna að 31,7% tilkynninga sem bárumst nefndum vegna líkamlegs ofbeldis voru af hendi náins aðila og um 28% allra tilkynninga um kynferðisofbeldi voru vegna kynferðisofbeldi af hendi náins aðila. Þá var einnig bætt við skráningu tilkynningar um stafrænt kynferðisofbeldi en 15,5% allra tilkynninga um kynferðisofbeldi voru vegna stafræns kynferðisofbeldis. Þar sem hér er um að ræða nýja skráningu eru ekki til gögn til samanburðar við fyrri ár.

Flestar tilkynningar bárust frá lögreglu á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022, lægra hlutfall en á sama tímabili árið 2021. Tilkynningum frá skólum og heilbrigðiskerfinu frá janúar fram í mars 2022 voru heldur færri en á sama tímabili árið 2021 en þó fleiri en árið þar áður.

Hér má lesa  skýrslur Barna- og fjölskyldustofu:

Barnaverndarstofa-urraedi-samanburdur-fyrstu-3-manudir-2019-2022

Samanburdur-a-tilkynningum-fyrstu-3-manudi-aranna-2020-2022


Nýjustu fréttir

26. jún. 2023 : Upplýsingabréf til íþrótta- og æskulýðsfélaga

Barna- og fjölskyldustofa hefur ásamt nokkrum öðrum aðilum tekið saman upplýsingabréf til íþrótta- og æskulýðsfélaga og samtaka sem standa að samkomum, viðburðum og mannamótum.

Í þessu upplýsingabréfi er að finna gagnlegar upplýsingar um ráðningar starfsfólks og sjálfboðaliða, um viðbrögð við hlutum sem geta komið upp og hvert er hægt að leita eftir frekari upplýsingum og nálgast fræðslu.

Lesa meira

16. jún. 2023 : Myndband um íslenska Barnahúsið

Evrópuráðið (Council of Europe) birti þann 1. júní s.l. myndband um Íslenska Barnahúsið. 

Myndbandið má nálgast hér


Þetta vefsvæði byggir á Eplica