Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgar áfram

Þetta er meðal annars þess sem kemur fram í samantekt á fjölda tilkynninga til barnaverndarnefna fyrstu níu mánuði áranna 2017 - 2019

15 jan. 2020

Í þessari samantekt er að finna samanburð á fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda skv. sískráningu þeirra fyrstu níu mánuði 2017, 2018 og 2019. Einnig er hér að finna upplýsingar um fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á þessum sama tíma 

Tilkynningar til barnaverndarnefnda. 

Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgaði um 9,8% á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 miðað við árið á undan. Hins vegar fjölgar tilkynningum um 12,8% ef miðað er við fyrstu níu mánuði ársins 2017. Fjöldi tilkynninga á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 var 8.242 tilkynningar. Tilkynningum fjölgaði bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni, en fækkaði lítillega á höfuðborgarsvæðinu miðar við árið á undan. 

Flestar tilkynningar á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 voru vegna vanrækslu líkt og árin á undan eða 42,4% tilkynninga. Þetta hlutfall var einnig 42,2% á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 og 38,7% á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. Hlutfall tilkynninga vegna ofbeldis á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 var 26,1%, 24,5% fyrir sama tímabil árið á undan og 27,2% á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. Hlutfall tilkynninga vegna áhættuhegðunar barna var 30,7% á fyrstu níu mánuðum ársins 2019, 31,9% fyrir sama tímabil árið á undan og 33,2% á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. Hlutfall tilkynninga þar sem að heilsu eða lífi ófædds barns var stefnt í hættu var um 1% öll árin. Hlutfall tilkynninga þar sem tilkynnt var um vanrækslu og fram kom að foreldrar voru í áfengis-og/eða fíkniefnaneyslu var 14,6% á fyrstu níu mánuðum ársins 2019, 14,2% fyrir sama tímabil árið á undan og 11,4% á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. En í tilkynningum um ofbeldi var hlutfall tilkynninga þar sem um heimilisofbeldi var að ræða 8,5% á fyrstu níu mánuðum ársins 2019, 7,3% fyrir sama tímabil árið á undan og 8,0% á fyrstu níu mánuðum ársins 2017.

Flestar tilkynningar bárust frá lögreglu, eða 44,1% tilkynninga á fyrstu níu mánuðum ársins 2019, hlutfallið var 43,7% fyrir sama tímabil árið á undan og 44,1% á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. Samanlagður fjöldi barna sem tilkynnt var um á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 var 6.567 börn, en sambærileg tala fyrir árið á undan var 5.860 börn og 5.786 börn á fyrstu níu mánuðum ársins 2017.

Umsóknir til Barnaverndarstofu.

Umsóknum um meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu fækkaði á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 miðað við sama tímabil árið á undan úr 129 umsóknum í 103. Umsóknir voru 107 á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 og voru flestar þeirra um MST (fjölkerfameðferð). Flestar umsóknir um meðferð bárust frá Reykjavík eða 40,8%.

Beiðnum til Barnaverndarstofu um fósturheimili fjölgaði á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 úr 91 beiðni í 121 miðað við sama tímabil árið á undan. Beiðnir um fósturheimili voru 137 á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. Beiðnum um tímabundið fóstur fjölgaði mest og flestar beiðnir bárust frá Reykjavík eða 38,8% á fyrstu níu mánuðum ársins 2019. 

Rannsóknarviðtöl í Barnahúsi fækkaði úr 173 á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 í 163 fyrir sama tímabil á árinu 2019, en þau voru 181 á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. Skýrslutökur fyrir dómi voru 88 á fyrstu níu mánuðum ársins 2019, 91 fyrir sama tímabil árið á undan en 82 á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. Könnunarviðtölum fyrir barnaverndarnefndir fækkaði úr 82 á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 í 75 fyrir sama tímabil á árinu 2019, en þau voru 99 á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. Fjöldi barna sem fór í greiningar- og meðferðarviðtöl á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 var 84 börn, en þau voru 85 fyrir sama tímabil árið og undan og 103 á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. 

Vistunum á lokaðri deild Stuðla fækkaði úr 182 í 159 á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 miðað við sama tímabil árið á undan. Vistanir voru 166 á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. Alls komu 65 börn á lokaða deild á fyrstu níu mánuðum ársins 2019, en þau voru 69 fyrir sama tímabil á árinu 2018 og 77 á fyrstu níu mánuðum ársins 2017.

Umsóknum til Barnaverndarstofu um leyfi til að gerast fósturforeldrar fækkaði miðað við árin á undan, voru 37 á fyrstu níu mánuðum ársins 2019, 54 fyrir sama tímabil á árinu 2018 og 43 á fyrstu níu mánuðum ársins 2017.

Hér er hægt að skoða samanburðarskýrsluna í heild sinni.


Nýjustu fréttir

26. jún. 2023 : Upplýsingabréf til íþrótta- og æskulýðsfélaga

Barna- og fjölskyldustofa hefur ásamt nokkrum öðrum aðilum tekið saman upplýsingabréf til íþrótta- og æskulýðsfélaga og samtaka sem standa að samkomum, viðburðum og mannamótum.

Í þessu upplýsingabréfi er að finna gagnlegar upplýsingar um ráðningar starfsfólks og sjálfboðaliða, um viðbrögð við hlutum sem geta komið upp og hvert er hægt að leita eftir frekari upplýsingum og nálgast fræðslu.

Lesa meira

16. jún. 2023 : Myndband um íslenska Barnahúsið

Evrópuráðið (Council of Europe) birti þann 1. júní s.l. myndband um Íslenska Barnahúsið. 

Myndbandið má nálgast hér


Þetta vefsvæði byggir á Eplica