Samanburður á fyrstu níu mánuðum 2014 og 2015
Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda fyrstu níu mánuði áranna 2014 og 2015 og upplýsingar um fjölda umsókna um þjónustu Barnaverndarstofu
Tilkynningar til barnaverndarnefnda
Í þessari samantekt er að finna samanburð á fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda skv. sískráningu nefndanna fyrstu níu mánuði áranna 2014 og 2015. Endanlegar upplýsingar um fjölda tilkynninga koma fram í samtölublöðum barnaverndarnefndanna sem birtast í ársskýrslu Barnaverndarstofu. Einnig er hér að finna upplýsingar um fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu fyrir fyrstu níu mánuði áranna 2014 og 2015.
Tilkynningum til barnaverndarnefnda fækkaði um tæplega 7% á fyrstu níu mánuði ársins 2015 miðað við fyrstu níu mánuði ársins 2014. Fjöldi tilkynninga fyrstu níu mánuði ársins 2015 var 6.339 tilkynningar, en 6.811 fyrir sama tímabil árið á undan. Tilkynningum á höfuðborgarsvæðinu fækkaði um 2% en fækkunin var 17,7% á landsbyggðinni. Þess ber að geta að tilkynning til barnaverndarnefndar verður að barnaverndarmáli ef tekin er ákvörðun um könnun máls í kjölfar tilkynningarinnar.
Flestar tilkynningar á fyrstu níu mánuðum ársins 2015 voru vegna vanrækslu eða 38% tilkynninga. Hlutfall tilkynningar fyrstu níu mánuði ársins 2014 vegna vanrækslu var 40,1%. Hlutfall tilkynninga vegna ofbeldis var 25,7% fyrir sama tímabil á árinu 2015, en 22% árið á undan. Hlutfall tilkynninga vegna áhættuhegðunar barna var 35,8% fyrir sama tímabil á árinu 2015, en 37,4% árið á undan. Hlutfall tilkynninga þar sem að heilsu eða lífi ófædds barns var stefnt í hættu var 0,6% á fyrstu níu mánuðunum bæði árin. Tilkynningum um vanrækslu fækkaði um tæplega 12%, tilkynningum um áhættuhegðun barna fækkaði um tæplega 11%, en tilkynningum um ofbeldi fjölgaði um 8,5%.
Fjöldi tilkynninga þar sem tilkynnt var um vanrækslu og fram kom að foreldrar voru í áfengis-og/eða fíkniefnaneyslu var svipaður bæði tímabilin, en tilkynningum um ofbeldi þar sem um heimilisofbeldi var að ræða fjölgaði um tæplega 27%. Flestar tilkynningar bárust frá lögreglu, eða 44,4% á fyrstu níu mánuðum ársins 2015, hlutfallið var 45,7% fyrir sama tímabil árið á undan.
Umsóknir til Barnaverndarstofu
Umsóknum um meðferð fækkaði um 19% á fyrstu níu mánuðum ársins 2015 miðað við sama tímabil árið á undan. Umsóknum um Stuðla fækkaði úr 33 umsóknum í 26 umsóknir, umsóknir um önnur meðferðarheimili (Laugaland, Lækjarbakka og Háholt) fækkaði úr 24 umsóknum í 16 umsóknir og umsóknum um MST fækkaði úr 64 umsóknum í 56 umsóknir. Fjölkerfameðferð (MST) snýr að fjölskyldum unglinga með fjölþættan hegðunarvanda sem kominn er á það alvarlegt stig að vistun unglings utan heimilis er talin koma til greina. Markhópurinn eru unglingar á aldrinum 12-18 ára og fer meðferðin fram á heimilum fólks. Frá því í febrúar 2015 hefur þjónusta MST náð til alls landsins, en áður var þjónustusvæðið miðað við 60 min. akstursfjarlægð frá Reykjavík. Fleiri umsóknir um Stuðla og MST voru vegna stúlkna fyrstu níu mánuði ársins 2015 en um langtímameðferðarheimili voru umsóknir fyrir drengi fleiri.
Beiðnum til Barnaverndarstofu um fósturheimili fjölgaði um rúmlega 15% úr 92 í 106 á umræddu tímabili. Beiðnum fjölgaði mest um styrkt fóstur. Flestar beiðnir voru frá Reykjavík á fyrstu níu mánuðum bæði árin, Beiðnum fjölgaði líttillega frá nágrenni Reykjavíkur en fjölda beiðna frá landsbyggðinni var sá sami bæði árin.
Í Barnahúsi fjölgaði rannsóknarviðtölum úr 151 á fyrstu níu mánuðum ársins 2014 í 179 á fyrstu níu mánuðum ársins 2015 eða um 18,5%. Skýrslutökum fjölgaði úr 48 í 96 milli ára en könnunarviðtölum fækkaði úr 103 í 83. Greiningar- og meðferðarviðtölum fækkaði úr 95 viðtölum í 83 viðtöl. Stúlkur voru í meirihluta þeirra barna sem komu í rannsóknarviðtöl, 68,7% á fyrstu níu mánuðum ársins 2015, en 67,5% fyrir sama tímabil árið á undan. Frá því í mars 2015 hefur Barnahús einnig sinnt skýrslutökum og meðferð barna sem hafa upplifað líkamlegt ofbeldi og/eða heimilisofbeldi.
Vistanir á neyðarvistun Stuðla voru 128 á fyrstu níu mánuðum ársins 2015 en 141 fyrir sama tímabil árið á undan. Vistunum fækkaði því um 11,6% milli ára. Vistunardögum fækkaði úr 886 í 871 eða um tæplega 2%. Fjöldi einstaklinga var 69 á fyrstu níu mánuðum ársins 2015 en 71 fyrir sama tímabil árið á undan og voru fleiri drengir bæði árin.
Umsóknir um leyfi til að gerast fósturforeldrar voru 40 á fyrstu níu mánuðum ársins 2015, en 50 fyrir sama tímabil árið á undan. Flestar umsóknir voru frá Reykjavík og nágrenni.
Hér má nálgast skýrsluna í heild.