Samstarf barnaverndar og skóla grundvöllur velferðar barna í barnaverndarkerfinu

3 ágú. 2012

Þann 29. maí sl. stóð Barnaverndarstofa að ráðstefnu um skóla og barnavernd í samstarfi við Skólastjórafélag Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök félagsmálastjóra, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur og Barnavernd Reykjavíkur. Skipuðu þessir aðilar fulltrúa í undirbúnings hóp en hópinn skipuðu: Halldór Hauksson sviðstjóri meðferðar- og fóstursviðs Barnaverndarstofu, Helga Jóna Sveinsdóttir deildarstjóri fósturteymis hjá Barnavernd Reykjavíkur, Hrund Logadóttir verkefnastjóri hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, Ingileif Ástvaldsdóttir skólastjóri Þelamerkurskóla og varaformaður Skólastjórafélags Íslands, Margrét Geirsdóttir yfirmaður skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar f.h. Samtaka félagsmálastjóra, Svandís Ingimundardóttir skólamálafulltrúi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Steinunn Bergmann félagsráðgjafi hjá Barnaverndarstofu.
 
Ráðstefnan var haldin á Grand Hótel Reykjavík og voru 130 þátttakendur á staðnum en einnig voru um 70 þátttakendur á 10 stöðum víðsvegar um landið sem fylgdust með útsendingu í gegnum streymi. Mennta- og menningarmálaráðuneytið veitti styrk til tryggja útsendinguna. Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningamálaráðherra setti ráðstefnuna og fjallaði hún um mikilvægi þessa málefnis en ráðstefnan er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu tók við að loknu erindi ráðherra og ræddi um réttindi barna og skyldu samfélagsins gagnvart þeim. Kynnti hann aðalfyrirlesara dagsins þá Bo Vinnerljung prófessor í félagsráðgjöf og sérfræðing hjá sænska velferðarráðinu (National Board of Health and Welfare, Stockholm)  og Tore Andreassen sálfræðing við Barnaverndarstofu Noregs (Barne-, ungdoms-, og familiedirektoratet).
 
Bo Vinnerljung fjallaði um rannsóknir á námsárangri fósturbarna og mikilvægi þess að beita sérstökum úrræðum í skólakerfinu til að bæta náms- og þroskahorfur þeirra. Benti hann á að slakur námsárangur er stærsta forspárgildi þess að börnum vegni illa síðar á lífsleiðinni. Halldór Hauksson fór yfir stöðu barna í fóstri og meðferð á vegum Barnaverndarstofu, Helga Jóna Sveinsdóttir og Arna Kristjánsdóttir fóru yfir meðferð fósturmála hjá Barnavernd Reykjavíkur og tækifæri og áskoranir í samstarfi barnaverndar og skóla. Ingileif Ástvaldsdóttir ræddi tækifæri og áskoranir sem skólar standa frammi fyrir þegar tekið er á móti fósturbörnum og ábyrgð allra aðila til að taka frumkvæði að samstarfi til að tryggja velferð barnanna.
 
Tore Andreassen ræddi skólagöngu barna á meðferðarstofnunum og færði rök fyrir kostum þess að börn í meðferð sæki almenna skóla en það kallar á nána samvinnu meðferðaraðila og skólafólks. Anni Haugen lektor við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands fjallaði um samstarf barnaverndar og skóla þar sem hún vitnaði í nýlegar rannsóknir sem gefa til kynna væntingar ungmenna til samstarfs þessara kerfa varðandi málefni þeirra og ákall starfsmanna skóla til aukins samstarfs við barnaverndaryfirvöld. Helga Guðmundsdóttir fræðslufulltrúi hjá Fljótsdalshéraði fjallaði um skólagöngu fósturbarna og mikilvægi þess að vandað sé til undirbúnings af hálfu sveitarfélaga. Guðni Olgeirsson sérfræðingur hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu ræddi samstarf um mótun menntastefnu og fór yfir mikilvægar reglugerðir sem unnið hefur verið að í kjölfar lagasetninga árið 2008 um leik-, grunn- og framhaldsskóla.
 
Í lok dagsins voru umræður í litlum hópum þar sem fjallað var um tækifæri og áskoranir í samstarfi skóla og barnaverndar, hvað þurfi til að tryggja aðlögun fósturbarna að skóla og nærumhverfi og hvernig sé hægt að auka samstarf meðferðaraðila og skólafólks. Umræðuhópar skiluðu niðurstöðum sínum þar sem m.a. kom fram að efla þurfi trúnað og traust milli þessara kerfa. Þá var bent á mikilvægi þess að starfsmenn barnaverndarnefnda komi reglulega inn í skólana og kynni vinnulag í barnavernd. Lögð var áhersla á að starfsmenn skóla og barnaverndarnefnda myndi teymi þar sem reglulega er farið yfir málefni barna sem njóta þjónustu barnaverndar og þá með þátttöku aðila. Einnig var lögð áhersla á samstarf milli sveitarfélaga þegar kemur að ráðstöfun barna í fóstur og aðlögun þeirra í skóla. Sjá nánar dagskrá ráðstefnunnar og upptöku af ráðstefnunni.

Skóli og barnavernd - upptaka


Nýjustu fréttir

26. jún. 2023 : Upplýsingabréf til íþrótta- og æskulýðsfélaga

Barna- og fjölskyldustofa hefur ásamt nokkrum öðrum aðilum tekið saman upplýsingabréf til íþrótta- og æskulýðsfélaga og samtaka sem standa að samkomum, viðburðum og mannamótum.

Í þessu upplýsingabréfi er að finna gagnlegar upplýsingar um ráðningar starfsfólks og sjálfboðaliða, um viðbrögð við hlutum sem geta komið upp og hvert er hægt að leita eftir frekari upplýsingum og nálgast fræðslu.

Lesa meira

16. jún. 2023 : Myndband um íslenska Barnahúsið

Evrópuráðið (Council of Europe) birti þann 1. júní s.l. myndband um Íslenska Barnahúsið. 

Myndbandið má nálgast hér


Þetta vefsvæði byggir á Eplica