Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgar áfram.
Í þessari samantekt er að finna samanburð á fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda skv. sískráningu nefndanna á fyrstu sex mánuðum áranna 2015, 2016 og 2017. Endanlegar upplýsingar um fjölda tilkynninga koma fram í samtölublöðum barnaverndarnefndanna sem birtast í ársskýrslu Barnaverndarstofu. Einnig er hér að finna upplýsingar um fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á fyrstu sex mánuðum áranna 2015, 2016 og 2017.
Tilkynningar
til barnaverndarnefnda
Tilkynningum til barnaverndarnefnda
fjölgaði um 11,3% á fyrstu sex mánuðum ársins 2017 miðað sama tímabil árið á
undan. Hins vegar er fjölgunin 17,7% ef miðað er við fyrstu sex mánuði ársins
2015. Fjöldi tilkynninga á fyrstu sex mánuðum ársins 2017 var 5.114
tilkynningar, en 4.596 á sama tímabili árið á undan. Tilkynningum á
höfuðborgarsvæðinu fjölgaði á fyrstu sex mánuðum ársins 2017 um 14,7%, en á
landsbyggðinni fjölgaði tilkynningum um 3,7% ef miðað er við sama tímabil árið
á undan. Þess ber að geta að tilkynning til barnaverndarnefndar verður að
barnaverndarmáli ef tekin er ákvörðun um könnun máls í kjölfar
tilkynningarinnar.
Tilkynningum fjölgar í öllum
flokkum, en flestar tilkynningar á fyrstu sex mánuðum ársins 2017 voru vegna
vanrækslu líkt og árin á undan en hlutfall tilkynninga vegna vanrækslu var 39,1%.
Hlutfall tilkynninga vegna ofbeldis lækkar og var 25% á fyrstu sex mánuðum
ársins 2017, en hlutfall tilkynninga vegna áhættuhegðunar barna hækkar og var
34,5% á fyrstu sex mánuðum ársins 2017, Hlutfall tilkynninga þar sem að heilsu
eða lífi ófædds barns var stefnt í hættu hefur hækkað úr 0,6% í 0,9% á
tímabilinu. Flestar tilkynningar bárust frá lögreglu, eða 43,2% tilkynninga á
fyrstu sex mánuðum ársins 2017, hlutfallið var 41,4% á sama tímabili árið á
undan og 41,7% á fyrstu sex mánuðum ársins 2015.
Umsóknir til
Barnaverndarstofu
Umsóknum um meðferðarúrræði á vegum
Barnaverndarstofu fjölgaði á fyrstu sex mánuðum ársins 2017 úr 68 umsóknum í 76
umsóknir. Umsóknir voru 69 á fyrstu sex mánuðum ársins 2015. Umsóknir um Stuðla
voru 18 á fyrstu sex mánuðum ársins 2017 og fjölgaði miðað við sama tímabil
árin á undan. Umsóknir um önnur meðferðarheimili (Laugaland, Lækjarbakka og Háholt)
voru 12 á fyrstu sex mánuðum ársins 2017 og er svipaður fjöldi og árin á undan.
Umsóknum um MST fjölgaði úr 41 í 46 umsóknir á fyrstu sex mánuðum ársins 2017
miðað við sama tímabil árið á undan. Umsóknir voru 44 fyrir sama tímabil á
árinu 2015. Fjölkerfameðferð (MST) snýr að fjölskyldum unglinga með fjölþættan
hegðunarvanda sem kominn er á það alvarlegt stig að vistun unglings utan
heimilis er talin koma til greina. Markhópurinn eru unglingar á aldrinum 12-18
ára og fer meðferðin fram á heimilum fólks. Frá því í febrúar 2015 hefur
þjónusta MST náð til alls landsins, en áður var þjónustusvæðið miðað við 60
min. akstursfjarlægð frá Reykjavík. Fleiri umsóknir um meðferð bárust fyrir
drengi en stúlkur á fyrstu sex mánuðum áranna 2016 og 2017, en fleiri umsóknir
fyrir stúlkur á sama tímabili ári 2015.
Beiðnum til Barnaverndarstofu um
fósturheimili fjölgaði á fyrstu sex mánuðum ársins 2017 úr 74 beiðnum í 84
miðað við sama tímabil árið á undan. Beiðnir um fósturheimili voru 70 á fyrstu sex
mánuðum ársins 2015. Beiðnum um tímabundið fóstur fjölgaði en beiðnum um
varanlegt fóstur og styrkt fóstur fækkaði. Flestar
beiðnir voru frá Reykjavík á fyrstu sex mánuðum ársin 2017 og 2015, en frá
landsbyggðinni fyrir sama tímabil á árinu 2016.
Rannsóknarviðtöl í Barnahúsi
skiptast í skýrslutökur fyrir dómi annars vegar og könnunarviðtöl fyrir
barnaverndarnefndir hins vegar. Rannsóknarviðtölum alls fjölgaði úr 111 á
fyrstu sex mánuðum ársins 2016 í 124 fyrir sama tímabil á árinu 2017, en þau
voru 136 á fyrstu sex mánuðum ársins 2015. Skýrslutökur fyrir dómi voru 50 á
fyrstu sex mánuðum ársins 2017, en 55 fyrir sama tímabil á árinu 2016 og 71 á
sama tímabili á árinu 2015. Skýrslutökum vegna kynferðislegs ofbeldis fækkaði á
árinu 2016 miðað við árið á undan úr 47 í 25, en þær voru 28 á fyrstu sex
mánuðum ársins 2017. Frá því í mars 2015 hefur Barnahús einnig sinnt
skýrslutökum og meðferð barna sem hafa upplifað líkamlegt ofbeldi og/eða
heimilisofbeldi. Könnunarviðtölum fyrir barnaverndarnefndir fjölgaði úr 56 á
fyrstu sex mánuðum ársins 2016 í 74 á fyrstu sex mánuðum ársins 2017, en þau
voru 65 á sama tímabili á árinu 2015. Fjöldi barna sem fór í greiningar- og
meðferðarviðtöl á fyrstu sex mánuðum ársins 2017 var 66 sem er svipaður fjöldi
og fyrir sama tímabil á árinu 2015, en þau voru 71 á fyrstu sex mánuðum ársins
2016. Stúlkur voru í meirihluta þeirra barna sem komu í rannsóknarviðtöl öll
árin.
Vistunum á lokaðri deild á Stuðla
fjölgaði úr 99 í 118 á fyrstu sex mánuðum ársin 2017 miðað við sama tímabil
árið á undan. Vistunardögum á grundvelli 25. gr og 31. gr. barnaverndarlaga
fjölgaði einnig úr 543 dögum í 723 daga, en vistunardagar á fyrstu sex mánuðum
ársins 2015 voru 562. Alls komu 58 börn á lokaða deild Stuðla á fyrstu sex
mánuðum ársins 2017, sem er sami fjöldi og árið á undan, en þau voru 50 fyrir
sama tímabil á árinu 2015.
Umsóknum um leyfi til að gerast
fósturforeldrar fækkaði, voru 27 á fyrstu sex mánuðum ársins 2015 og 2017, en
34 á fyrstu sex mánuðum ársins 2016.
Hér má sjá
sundurliðun á þessum samanburði.