Þriðja MST teymið

Eldri biðlisti hvarf og nýr biðlisti líklega viðráðanlegri

1 nóv. 2019

Í lok september fjölgaði sérfræðingum sem starfa í MST teymum Barnaverndarstofu (fjölkerfameðferð) úr tólf í fimmtán. Vegna vaxandi eftirspurnar eftir MST meðferð hefur sérfræðingum fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár eða úr tíu í ellefu árið 2017 og í tólf árið 2018. Við þessa fjölgun sérfræðinga nú í fimmtán var þeim dreift niður á þrjú teymi, í stað tveggja áður, sem starfa enn sem fyrr í náinni samvinnu, á sameiginlegri starfstöð og með sameiginlega bakvakt. MST meðferðin er sem kunnugt er í boði á landsvísu og fer fram með forsjáraðilum og barni og heimilum þeirra og í nærumhverfi. 

 Fjölgun sérfræðinga í MST var gerð í þeirri viðleitni að geta brugðist við eftirspurn hraðar og jafnóðum til lengri tíma og ekki síst til ná niður biðlista eftir MST meðferð sem hafði verið samfelldur frá því í janúar 2018. Dæmi voru um að börn og fjölskyldur þurftu að bíða í 3-4 mánuði eftir meðferð og jafnvel lengur. Á fyrstu dögum októbermánaðar tókst að vinna niður þennan biðlista, sem var þó skammgóður vermir, því allir MST þerapistar voru komnir með hámarks málafjölda og flestum málum nýúthlutað. MST meðferð tekur jafnan á bilinu 3-5 mánuði og hefur því aftur myndast biðlisti eftir MST sem er þó enn sem komið er öllu viðráðanlegri og styttri en áður. Vonir standa til að með auknum afköstum myndist síður biðlisti eða til skemmri tíma í senn.

Að jafnaði klára um 83% þeirra sem hefja MST meðferð en um 17% hætta meðferð á fyrri hluta meðferðartímans, m.a. af því leita þarf öruggari leiða svo sem vistunar á meðferðadeild Stuðla eða á meðferðarheimili. Fjöldi umsókna barnaverndarnefnda eftir meðferð dreifist frekar ójafnt yfir árið. Á seinnihluta árs, frá október, berast umsóknir þéttar og stendur það jafnan fram eftir vetri fram á næsta vor.

Af þessum sökum verður að svo stöddu látið reyna á hversu vel tekst að bregðast við nýjum umsóknum og hvort biðlistinn vex eða biðin eftir meðferð verður of löng. Markmiðið er ávallt að geta brugðist hratt við umsóknum um meðferð en erfitt getur verið að útiloka að það gerist ávallt án nokkurar biðar nema ef úrræði væru höfð það umfangsmikil að hægt væri að reka þau með tómum plássum yfir lengri eða skemmri tíma, sem á hinn bóginn gæti þótt umdeilanleg forgangsröðun fjármuna. Hér skal þó tekið fram að það sem af er hausti hafa pláss verið laus á báðum meðferðarheimilum Barnaverndarstofu, Lækjarbakka og Laugalandi, og því getur Barnaverndarstofa brugðist mjög hratt við umsóknum barnaverndarnefnda um vistun barna sem þangað eiga erindi.

Meðan biðlistinn eftir MST var sem lengstur á árinu 2018 voru dæmi um að þegar nær dróg vormánuðum var upphafi meðferðar í samráði við foreldra frestað fram að næsta hausti þegar skólar hófust að nýju. Átti þetta einkum við ef skólaganga og nám var veigamikill þáttur í vanda barns og öryggi barnsins að öðru leyti talið tryggt. Með þessum hætti var hægt að bregðast hraðar við öðrum málum á biðlistanum þar sem vímuefnaneysla og annar alvarlegur vandi var meginástæða MST meðferðar.


Nýjustu fréttir

15. maí 2024 : Stöðuskýrsla til ráðherra á þriðja ári innleiðingar

Frá því að lögin um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna voru samþykkt hefur markvisst verið unnið að innleiðingu þeirra á vegum ríkis og sveitarfélaga um allt land.

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica