Ný rafræn námskeið um kynferðisofbeldi gagnvart börnum
Barna- og fjölskyldustofa hefur framleitt ný rafræn námskeið um kynferðisofbeldi gagnvart börnum. Þessi námskeið eru ætluð öllum þeim sem koma að starfi með börnum upp að 18 ára aldri.
Í þessum námskeiðum er farið yfir möguleg einkenni kynferðisofbeldis, tilkynningaskylduna, þau viðbrögð sem eru mikilvæg verði starfsfólk þess áskynja að barn sýni óeðlilega kynhegðun, ber einkenni þess sem hefur orðið fyrir ofbeldi eða sýni þess merki að það vilji segja frá. Einnig hvað þykir eðlileg kynferðisleg hegðun barna á ákveðnum aldri, hvaða hegðun veldur áhyggjum og hvenær ráðlegt er að kalla eftir áliti sérfræðings.
Nýju námskeiðin samanstanda af 6 námsþáttum en hver námsþáttur byggir á stuttum myndböndum, spurningum til umhugsunar og ítarefni. Námskeiðin eru aldurskipt og miðað er við að þáttakendur velji sér námskeið eftir því á hvaða aldri þau börn eru sem viðkomandi hefur helst afskipti af gegnum störf sín.
Þessi nýju námskeið heita: Kynferðisofbeldi og kynferðisleg hegðun barna og unglinga og þau er að finna í skóla Barna- og fjölskyldustofu (BOFS skólanum) á netinu en slóðin inn á hann er: https://bofs.teachable.com