Námskeið fyrir fósturforeldra
Sérhæft námskeið fyrir fósturforeldra barna innan fjölskyldu
Dagana 3. og 31. mars 2017 verður PRIDE námskeið fyrir fósturforeldra sem eru með börn innan fjölskyldu í fóstri. Námskeiðið verður haldið í fundarsal Barnaverndarstofu í Borgartúni 21, 105 Reykjavík. Hér er yfirlit yfir námskeiðið þ.e. tímasetningar og innihald þess.
Námskeiðið fjallar um þörf barns fyrir öryggi; sorgarúrvinnslu; umsjá barna annarra; samstarf innan fjölskyldu og breytingar á hlutverkum innan fjölskyldu auk hlutverks hins opinbera í fósturráðstöfun.
Námskeiðið er haldið tvo eftirmiðdaga. Þátttakendafjöldi er að hámarki 20 og er mikilvægt að allir geti mætt báða dagana. Fræðslan fer fram með fyrirlestrum, umræðum, hópavinnu, myndböndum og æfingum. Þátttakendur fá kennsluefni og veitingar meðan á námskeiðinu stendur, þeim að kostnaðarlausu en standa sjálfir straum af ferðum, gistingu og uppihaldi. Í lok námskeiðs fara leiðbeinendur í heimsókn á heimili þátttakenda.
Barnaverndarstofa hefur afnotarétt af fræðsluefni sem nefnist Foster-Pride sem er bandarískt að uppruna. Námskeiðið hefur verið haldið frá árinu 2004 á vegum Barnaverndarstofu en er nú í fyrsta sinn sérsniðið að þörfum þeirra sem eru með börn innan fjölskyldu í fóstri. Um er að ræða grunnnámskeið byggt á Foster-Pride sem ætlað er að veita þekkingu og skilning á þáttum sem flestir fósturforeldrar takast almennt á við. Námskeiðið leggur auk þess áherslu þætti sem skipta máli fyrir fósturforeldra barna innan fjölskyldu eða vegna annarra tengsla.