Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndanefnda og umsókna um þjónustu Barnaverndarstofu fyrir árin 2014 og 2015.  

Tilkynningum til barnaverndarnefnda fækkaði um rúmlega 4% milli áranna og umsóknum um meðferð fækkaði um 15,2% á árinu 2015 miðað við árið á undan.

1 mar. 2016

Í þessari samantekt er að finna samanburð á fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda skv. sískráningu nefndanna á árunum 2014 og 2015. Endanlegar upplýsingar um fjölda tilkynninga koma fram í samtölublöðum barnaverndarnefndanna sem birtast í ársskýrslu Barnaverndarstofu. Einnig er hér að finna upplýsingar um fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2014 og 2015. Tilkynningum til barnaverndarnefnda fækkaði um rúmlega 4% milli áranna 2014 og 2015. Fjöldi tilkynninga á árinu 2015 var 8.519 tilkynningar, en 8.893 árið á undan. Tilkynningum á höfuðborgarsvæðinu fækkaði lítið en fækkunin var 12,5% á landsbyggðinni. Þess ber að geta að tilkynning til barnaverndarnefndar verður að barnaverndarmáli ef tekin er ákvörðun um könnun máls í kjölfar tilkynningarinnar.

Flestar tilkynningar á árinu 2015 voru vegna vanrækslu eða 37,9% tilkynninga. Hlutfall tilkynningar á árinu 2014 vegna vanrækslu var 39,7%. Hlutfall tilkynninga vegna ofbeldis var 25,6% á árinu 2015, en 22,4% árið á undan. Hlutfall tilkynninga vegna áhættuhegðunar barna var 35,9% á árinu 2015, en 37,3% árið á undan. Hlutfall tilkynninga þar sem að heilsu eða lífi ófædds barns var stefnt í hættu var 0,6% bæði árin. Tilkynningum um vanrækslu fækkaði um 8,5%, tilkynningum um áhættuhegðun barna fækkaði um 7,9%, en tilkynningum um ofbeldi fjölgaði um 9,5%. Hlutfall tilkynninga þar sem tilkynnt var um vanrækslu og fram kom að foreldrar voru í áfengis-og/eða fíkniefnaneyslu var 11,5% á árinu 2015, en 11,0%  árið á undan. Í tilkynningum um ofbeldi var hlutfall tilkynninga þar sem um heimilisofbeldi var að ræða 7,3% á árinu 2015 en 5,6% árið á undan. Fjöldi tilkynninga þar sem tilkynnt var um vanrækslu og fram kom að foreldrar voru í áfengis-og/eða fíkniefnaneyslu var svipaður bæði tímabilin, en tilkynningum um ofbeldi þar sem um heimilisofbeldi var að ræða fjölgaði um tæplega 26%.

Umsóknum um meðferð fækkaði um 15,2% á árinu 2015 miðað við árið á undan. Umsóknum um Stuðla fækkaði úr 46 umsóknum í 36 umsóknir, umsóknir um önnur meðferðarheimili (Laugaland, Lækjarbakka og Háholt) fækkaði úr 30 umsóknum í 23 umsóknir og umsóknum um MST fækkaði úr 95 umsóknum í 86 umsóknir. Fjölkerfameðferð (MST) snýr að fjölskyldum unglinga með fjölþættan hegðunarvanda sem kominn er á það alvarlegt stig að vistun unglings utan heimilis er talin koma til greina. Markhópurinn eru unglingar á aldrinum 12-18 ára og fer meðferðin fram á heimilum fólks. Frá því í febrúar 2015 hefur þjónusta MST náð til alls landsins, en áður var þjónustusvæðið miðað við 60 min. akstursfjarlægð frá Reykjavík. Fleiri umsóknir um Stuðla og MST voru vegna drengja á árinu 2015 en um langtímameðferðarheimili voru umsóknir fyrir stúlkur fleiri. Beiðnum til Barnaverndarstofu um fósturheimili fjölgaði um 16,7% eða úr 120 í 140 milli áranna 2014 og 2015. Beiðnum fjölgaði mest um styrkt fóstur. Flestar beiðnir voru frá Reykjavík bæði árin og fjölgaði beiðnum mest þar. Fleiri beiðnir bárust fyrir drengi á árinu  2015.

Í Barnahúsi fjölgaði rannsóknarviðtölum úr 221 á árinu 2014 í 240 á árinu 2015 eða um 8,6%. Skýrslutökum fjölgaði úr 77 í 126 milli ára en könnunarviðtölum fækkaði úr 144 í 114. Greiningar- og meðferðarviðtölum fækkaði úr 141 viðtali í 115 viðtöl. Stúlkur voru í meirihluta þeirra barna sem komu í rannsóknarviðtöl, 68,3% á árinu 2015, en 67,4% árið á undan. Frá því í mars 2015 hefur Barnahús einnig sinnt skýrslutökum og meðferð barna sem hafa upplifað líkamlegt ofbeldi og/eða heimilisofbeldi.

Vistanir á lokaðri deild Stuðla voru 176 á árinu 2015 en 163 árið á undan. Vistunum fjölgaði því um 8,0% milli ára. Vistunardögum fjölgaði úr 1.102 í 1.59 eða um rúmlega 5%. Fjöldi einstaklinga var 84 börn á árinu 2015 en 81 barn árið á undan og voru fleiri drengir bæði árin.

Umsóknir um leyfi til að gerast fósturforeldrar voru 59 á árinu 2015 en 61 árið á undan. Flestar umsóknir voru frá Reykjavík og nágrenni.

Hér er hægt að skoða samanburðarskýrsluna í heild sinni.


Nýjustu fréttir

01. nóv. 2023 : Barnahús 25 ára

26. jún. 2023 : Upplýsingabréf til íþrótta- og æskulýðsfélaga

Barna- og fjölskyldustofa hefur ásamt nokkrum öðrum aðilum tekið saman upplýsingabréf til íþrótta- og æskulýðsfélaga og samtaka sem standa að samkomum, viðburðum og mannamótum.

Í þessu upplýsingabréfi er að finna gagnlegar upplýsingar um ráðningar starfsfólks og sjálfboðaliða, um viðbrögð við hlutum sem geta komið upp og hvert er hægt að leita eftir frekari upplýsingum og nálgast fræðslu.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica