Fjölkerfameðferð (MST) verður nú veitt um allt land

23 des. 2014

Barnaverndarstofa hefur að beiðni félags- og húsnæðismálaráðherra lagt mat á með hvaða hætti megi veita MST meðferð á landsvísu. Ráðherra hefur fallist á niðurstöðu Barnaverndarstofu sem felst í því að veita þjónustuna á landsvísu út frá núverandi starfsstöð í Reykjavík. Fram að þessu hefur meðferðin verið veitt í allt að 70-80 km akstursfjarlægð frá Reykjavík.

MST þjónustan byggir á starfsemi meðferðarteyma með allt að fjórum þerapistum (sálfræðingum og félagsráðgjöfum) og teymisstjóra (sálfræðingi). Eitt MST teymi veitir um 40-50 fjölskyldum barna (12-18 ára) þjónustu ár hvert. Meðferðin tekur að jafnaði fjóra mánuði eða frá þremur og upp í fimm mánuði sem jafnan er hámarkstími. MST fer fram á heimili og í nærumhverfi fjölskyldunnar og gerir þá kröfu að barnið búi heima.

Niðurstaðan byggir þeim rökum að ef miðað er við hlutfall tilvísana í MST af fjölda barna í sveitarfélögum á núverandi þjónustusvæði MST undanfarin þrjú ár verður í ljósi íbúafjölda þeirra sveitarfélaga sem liggja utan núverandi þjónustusvæðis að teljast útilokað að fjöldi mála í einhverju þeirra yrði nægilegur til að staðsetja þar MST teymi. Einnig er horft til þess að miðstöð flugsamgangna er í Reykjavík og því greiðast að fljúga þaðan og/eða aka á þá staði sem MST meðferðin er veitt. Ferðatíminn yrði í flestum tilvikum á bilinu 1-2 klukkustundir sem er í raun svipaður tími og innan núverandi þjónustusvæðis en MST verður einnig í boði á svæðum þar sem um lengri ferðatíma er að ræða. Ferðalögin yrðu sveitarfélögum að kostnaðarlausu. Með þessum hætti er hægt að veita sveitarfélögum sem jafnast aðgengi að MST og viðhalda jöfnum gæðum í meðferð.

Þjónustan á landsvísu mun byggja á sömu þáttum og endranær í MST, þar með talið góðum undirbúningi og samvinnu við lykilaðila í nærumhverfi fjölskyldunnar, aðallega foreldra, starfsmenn barnaverndar, skóla eða vinnustaði, lögreglu osfrv. Jafnan yrði miðað við vikulegar ferðir MST þerapista til fjölskyldunnar, tíða símafundi eins oft og þurfa þykir og sólarhringsaðgengi að MST þerapista. Þerapisti getur dvalið yfir nótt í byggðarlaginu þegar þörf krefur, sem getur átt við í upphafi meðferðar, við sérstakar aðstæður eða ef fleiri en eitt mál er í gangi á svæðinu á hverjum tíma. Málum verður dreift jafnt á alla MST þerapista og enginn einn sinnir sérstökum svæðum umfram önnur, því allir starfsmenn MST þurfa að þekkja sem best til aðstæðna í öllum kerfum í kringum barn og fjölskyldu og skiptast þeir á upplýsingum frá degi til dags. Þetta er mikilvægur þáttur í að viðhalda gæðum í meðferð óháð búsetu fjölskyldna og nauðsynlegt til að starfsmenn geti skipt með sér bakvöktum, þ.e. sólarhringsþjónustu í síma við fjölskyldur sem er mikilvægur hluti af MST.

Foreldrar geta hringt í MST þerapista hvenær sem er sólarhrings og fengið ráðleggingar og hvatningu út frá þörfum hvers og því vikulega skipulagi og inngripum sem ákveðin eru frá einni viku til annarar á fjölskyldufundum með MST þerapista. Foreldrar sækja margvíslegan stuðning í símabakvakt MST, m.a. stuðning við að framkvæma öryggis- og leitarplön, að takast á við krefjandi hegðun eða eigin líðan. Misjafnt er hversu oft foreldrar leita stuðnings símabakvaktar en jafnan er ekki þörf á að MST þerapisti fara á staðinn fyrir utan hinar að minnsta kosti vikulegu heimsóknir til fjölskyldunnar. Því er þessi þáttur ekki talinn fyrirstaða í viðhalda sambærilegum gæðum í þjónustu við alla landshluta. Hér verður byggt á langri og góðri reynslu Norðmanna af MST þjónustu við byggðarlög sem eru of fámenn til að hægt sé að staðsetja þar MST teymi. Íslensku MST teymin hafa frá því í haust fengið hina skyldubundnu og vikulegu MST ráðgjöf og eftirlit frá norskum MST sérfræðingum en fram að því var sú þjónusta fengin frá MST móðurstöðinni sem staðsett er vestan hafs. Sjá nánar á heimasíðu Barnaverndarstofu skjalið „Markmið og leiðbeiningar fyrir fjölkerfameðferð“


Nýjustu fréttir

15. maí 2024 : Stöðuskýrsla til ráðherra á þriðja ári innleiðingar

Frá því að lögin um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna voru samþykkt hefur markvisst verið unnið að innleiðingu þeirra á vegum ríkis og sveitarfélaga um allt land.

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica