MST fær hvatningaverðlaun ÞÚ GETUR!

13 okt. 2014

Forvarna- og fræðslusjóðurinn ÞÚ GETUR veitti MST-fjölkerfameðferð hvatningaverðlaun „fyrir framúrskarandi eflingu geðheilsu og baráttu gegn fordómum“ eins og segir á viðurkenningarskjali.

Verðlaunin voru veitt á alþjóða geðheilbrigðisdeginum föstudaginn 10. október og var afhendingin hluti af dagskrá í bíó Paradís. MST er gagnreynt meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu og var innleitt hér á landi á haustmánuðum 2008 og hefur reynst mikilvæg viðbót í meðferðarkerfi Barnaverndarstofu.

MST er ætlað fjölskyldum barna á aldrinum 12-18 ára sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda, sem getur komið fram í skólavanda, slakri skólasókn eða vanvirkni á vinnumarkaði, að börnin beiti ofbeldi eða hótunum, komist í kast við lögin og neyti vímuefna. Markmið MST meðferðar taka jafnan til vanda barns á flestum eða öllum þessara sviða og miða að því að barnið geti búið heima og aðlagst sínu nærumhverfi í stað þess að færast á jaðar samfélagsins eða þurfa vistun utan heimilis. Hegðunar- og vímuefnavandi barns getur orðið það alvarlegur að hann reynist foreldrum og nærumhverfi barnsins ofviða og barninu skaðlegur. Rannsóknir sýna hins vegar að verði meðferð í nærumhverfi við komið, jafnvel þó vandinn sé alvarlegur, þá beri hún meiri árangur og til lengri tíma heldur en ef barn er vistað utan heimilis.

MST fer fram á heimili fjölskyldunnar og gerir þá kröfu að barnið búi á heimilinu.Sérhæfður meðferðaraðili er í reglulegum samskiptum við foreldra og eftir atvikum barn nokkrum sinnum í hverri viku á heimili þeirra og í síma. Foreldrar hafa auk þess aðgengi að meðferðaraðila í síma allan sólarhringinn. Í sameiningu eru sett skýr meðferðarmarkmið sem taka mið af vanda hvers barns. Árangur er metinn vikulega og leitað er nýrra leiða með foreldrum þegar hindranir standa í vegi fyrir breytingum. Strangar kröfur eru gerðar til meðferðaraðila um verklag, gæði og meðferðarfylgni. Meðferðarinngripin byggja helst á fjölskyldumeðferð, hugrænni atferlismeðferð og atferlismótun.

 

MST snýr að öllu nærumhverfi barnsins, foreldrum, fjölskyldu, félagahópi, skóla og tómstundum. Þannig er vandi barnsins meðhöndlaður í umhverfinu þar sem barnið býr og kemur til með að búa þegar meðferð er lokið. Með þeim hætti má bæði takast á við bakslög og festa í sessi framfarir á réttum stöðum jafnóðum og þær eiga sér stað. Áhersla er lögð á að endurheimta og efla styrkleika fjölskyldumeðlima, fá jafnvel aðstoð vina og vandamanna og efla styðjandi þætti í nærumhverfinu. Barn stundar sinn heimaskóla með viðeigandi aðstoð og aðlagast jákvæðari félagahópi og tómstundum. Foreldrar fá stuðning við að auka eftirlit með barninu, styrkja jákvæða hegðun, bæta samskipti og samheldni innan fjölskyldunnar, tengsl og samráð foreldra og skóla og annarra lykilaðila í umhverfi barnsins.

 


Nýjustu fréttir

Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

02. feb. 2024 : Framhaldsnámskeið ætlað tengiliðum farsældar

Nú hefur verið opnað fyrir framhaldsnámskeið sem ætlað er tengiliðum farsældar.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica