Börn á meðferðarheimilum þurfa mikla aðlögun að heimaumhverfi!

Stundum verður vart við þá gagnrýni á störf meðferðarheimila að þau passi ekki börnin nógu vel og eigi ekki að leyfa þeim að fara heim því það leiði til bakslaga. 

13 feb. 2014

Stundum verður vart við þá gagnrýni á störf meðferðarheimila að þau passi börnin ekki nógu vel og eigi ekki að leyfa þeim að fara heim því það leiði til bakslaga. Nauðsynleg aðlögun að heimahögum sem þáttur meðferðar er í slíkri gagnrýni misskilin sem „bæjarleyfi“ og „frí“ frá meðferðinni. Einnig verður vart við þann misskilning að MST meðferð sé ekki vímuefnameðferð því hún feli ekki í sér vistun barns utan heimilis.

Fjölskyldumeðferð og tengsl meðferðarheimila við heimaumhverfi barna var umfjöllunarefni á starfsdegi meðferðarúrræða Barnaverndarstofu þann 7. febrúar síðastliðinn. Hátt í 60 starfsmenn eða um tveir þriðju hlutar allra starfsmanna frá Stuðlum, meðferðarheimilunum Lækjarbakka, Laugalandi og Háholti, sem og úr fjölkerfameðferð (MST) fóru yfir mikilvæga þætti sem skipta máli í meðferð hegðunar- og vímuefnavanda hjá börnum og unglingum. Fjallað var um mikilvægi þess að meðferðarheimilin tengist enn betur við það umhverfi sem börnin koma úr og hvernig yfirvinna má þær hindranir sem staðsetning meðferðarheimila fjarri heimahögum barna og fjölskyldna getur valdið. Einnig var fjallað um yfirfærslu árangurs á heimaumhverfi í þjálfun í félagsfærni, sjálfstjórn og siðferðilegri rökræðu sem hefur verið miklvægur hluti af meðferð á Stuðlum og meðferðarheimilum um árabil.

Eins og kunnugt er þarf að beita fjölhliða aðferðum í meðferð hegðunar- og vímuefnavanda hjá börnum og unglingum. Algengast er að börn sem fá meðferð á vegum barnaverndar glími við fjölþættan vanda þar sem hegðunar- eða vímuefnavandi (og fíkn) er hluti af stærri vanda. Mikilvægur þáttur meðferðar á meðferðarstofnun er að veita börnum skjól fyrir neikvæðum áreitum og aðlaga þau reglubundnu og góðu lífi. Við þetta bætist sá órjúfanlegi þáttur meðferðar að gera börnin hæfari til aðlögunar að heimaumhverfi meðan á vistun stendur og eftir að henni lýkur. Rannsóknir leiða í ljós að árangur meðferðar ræðst mjög af því hvernig tekst að meðhöndla áhættuþætti eins og tengsl og samskipti við fjölskyldu, jákvæðan félagsskap, tómstundir, skóla eða vinnu. Með því að beina sterkari sjónum að fjölskyldunni og heimaumhverfi má bæta öryggi við aðlögun barna að heimaumhverfi og úrvinnslu bakslaga. Aðlögun að heimaumhverfi þarf að fara fram í mörgum litlum skrefum meðan á vistun stendur og eðli málsins samkvæmt verða bakslög sem geta verið óþægileg fyrir aðstandendur og skaðleg þeim sem í hlut eiga. Reynt er að draga úr skaðsemi og auka öryggi með því að undirbúa vel heimferðir af meðferðarheimilum og gera öryggis- og leitarplön ef á þarf að halda í samvinnu við foreldra og barnaverndarnefndir. Mikil reynsla og góður árangur er af slíkri vinnu í MST (fjölkerfameðferð) sem hefur nýst meðferðarheimilum. Samvinna við lögreglu er mikilvæg og getur verið ómissandi öryggisþáttur í meðferð barna sem glíma við hegðunar- og vímuefnavanda.

Í þeirri gagnrýni á störf meðferðarheimila sem getið var hér í upphafi  kristallast ákveðin mótsögn eða sú vænting að meðferðarumhverfið eigi vera eins og lokaður heimur en um leið þykja það ekki góð vinnubrögð ef aðlögun barna að heimaumhverfi þykir ónóg og eftirmeðferð skortir. Því er til að svara að þó áhyggjur af börnum sem misnota vímuefni séu eðlilegar þarf að hafa í huga að engin meðferðarleg eða uppeldisleg rök hníga að því að loka börn inni til lengri tíma. Auk þess hafa  meðferðarheimili engar lagaheimildir til þess. Meðferðarúrræði Barnaverndarstofu munu því áfram leitast við að bæta þá vinnu sem snýr að aðlögun barna heim, samvinnu við foreldra, barnaverndarnefndir og lögreglu um börn í meðferð sem glíma við bakslög eða týnast. Stefnan er ávallt að auka öryggi, hraða viðbrögðum við bakslögum og halda meðferðinni áfram.

Halldór Hauksson sviðstjóri meðferðar- og fóstursviðs Barnaverndarstofu

 


Nýjustu fréttir

15. maí 2024 : Stöðuskýrsla til ráðherra á þriðja ári innleiðingar

Frá því að lögin um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna voru samþykkt hefur markvisst verið unnið að innleiðingu þeirra á vegum ríkis og sveitarfélaga um allt land.

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica