112 er barnanúmerið
Mikilvægt er að börn og foreldrar viti hvert á að leita þegar grunur er um vanrækslu eða ofbeldi
Mikilvægt er að börn og foreldrar viti hvert á að leita þegar grunur er um vanrækslu eða ofbeldi
Í grein Steinunnar Bergmann félagsráðgjafa á Barnaverndarstofu sem birtist í Fréttablaðinu þann 14 febrúar kemur m.a. fram að neyðarlínan - 112 - tekur á móti tilkynningum samkvæmt umboði frá barnaverndarnefndum landsins.
Þar segir ennfremur að Barnaverndarstofa hafði frumkvæði að samstarfinu árið 2003 en markmiðið er að hægt verði að hafa samband við allar barnaverndarnefndir landsins gegnum 112 á öllum tímum sólarhringsins og auðvelda þannig almenningi að rækja lagaskyldur sínar um að tilkynna til barnaverndarnefnda.
Einnig skrifar Steinunn að börn eru frá fæðingu háð umönnun foreldra sinna og hafa gæði umönnunarinnar úrslita áhrif á velferð barna og fullorðinslíf þeirra. Þó allir foreldrar vilji reynast barni sínu vel eru ýmsir álagsþættir sem hafa áhrif á foreldrahæfni þeirra, bæði ytri og innri þættir eins og fjárhagsvandi, veikindi og skortur á stuðningi. Þessir þættir spila oft saman, sem eykur álagið enn frekar og hefur umhverfið þannig veruleg áhrif á það hvernig til tekst. Afríska máltækið „það þarf heilt þorp til að ala upp barn" á vel við en vanræksla, ofbeldi og áhættuhegðun barna eru þættir sem tengjast innbyrðis. Því er mikið í húfi að stofnanir samfélagsins séu á varðbergi í því skyni að skima fyrir áhættuþáttum.