Miðstöð foreldra og barna

23 nóv. 2012

Árið 2008 stofnuðu nokkrir sérfræðingar Miðstöð foreldra og barna (MFB) sem ætlað er að meðhöndla vanlíðan mæðra og efla samband þeirra við börn sín (0-5 ára) og þar með þroska og velferð barnanna. Um er að ræða nýjung hér á landi þar sem sérhæfð meðferðarúrræði í geðheilbrigðisþjónustu fyrir foreldra og börn þeirra undir 5 ára aldri hafa ekki verið til staðar. Ung börn eru í sérstakri áhættu ef foreldrar glíma við geðheilsuvanda eða fíkn, voru sjálfir vanræktir eða misnotaðir sem börn, eru óþroskaðir og njóta lítils stuðnings fjölskyldu, búa við fátækt eða heimilisofbeldi. Viðvarandi streita ungra barna skaðar heilann og dregur úr vexti hans, veikir ónæmiskerfið og mótstöðuafl líkamans gegn langvinnum heilsufarsvandamálum fram á fullorðinsár og hamlar félags- og tilfinningalegum þroska. Stór hópur foreldra og barna þarf meiri og sérhæfðari aðstoð en grunnþjónusta heilsugæslu veitir án þess að eiga erindi á geðdeild.

Meðferðin byggist á samþættingu sálgreiningar, tengslakenningar, atferlismótunar og fræðslu en fyrirmyndin er fengin frá Mellow Parenting í Skotlandi. MFB er einnig í samstarfi við Anna Freud Centre í London um meðferðarformið “Parent Infant Project” eða foreldraefling. Markmiðið er að meðhöndla vanlíðan mæðra sem eiga ung börn, efla samband þeirra við börn sín og þar með þroska og velferð barnanna. Forsenda fyrir þátttöku í meðferðinni er áhugahvöt mæðra og er líðan og samskipti mæðra við börn sín skoðuð í ljósi reynslu þeirra.

Starfsemin hefur verið fjármögnuð af styrkjum frá félagasamtökum, stofnunum og fyrirtækjum en nú hefur Velferðarráðuneytið tryggt rekstrarframlag til tveggja ára. Starfsemin flutti nýlega aðsetur sitt í húsnæði SÍBS að Síðumúla 6 en var áður í Mosfellsbæ.

Markhópur MFB hefur fengið ýmsa þjónustu víðs vegar í kerfinu en hún er ekki sambærileg við þá meðferð sem veitt er hjá MFB. Um er að ræða þjónustu sem er nauðsynleg og löngu tímabær í íslensku samfélagi. Í mörgum nágrannalöndum okkar hefur slík þjónusta verið í uppbyggingu sl. 15-20 ár og er lengst komin á Norðurlöndunum, t.d. Finnlandi og Danmörku ásamt Bretlandi og Skotlandi. Víða hefur verið komið á fót meðferðarúrræðum sem snúa að því að greina geðheilsu- og tengsla-vanda snemma til að auka líkur á að hægt sé að draga úr millikynslóða-flutningi geðheilsuvanda.

Frekari upplýsingar um Miðstöð foreldra og barna má nálgast á vefsíðunni www.fyrstutengsl.is
 

Nýjustu fréttir

Utlit-a-namskeid-_agust.001-17

05. sep. 2024 : Við erum að flytja vefinn okkar

Við erum smám saman að flytja vefinn okkar yfir á island.is og þar er að finna það helsta sem er á döfinni hjá okkur og allar nýjustu upplýsingar.  Fara á nýjan vef.

27. ágú. 2024 : Börn á Flótta – Málþing

UNICEF á Íslandi, Rauði krossinn á Íslandi og Barna- og fjölskyldustofa (BOFS) hafa í samstarfi unnið fræðslumyndband um börn á flótta.

Fræðsluefnið um börn á flótta. Smellið hér til að nálgast fræðsluna

Lesa meira

15. maí 2024 : Stöðuskýrsla til ráðherra á þriðja ári innleiðingar

Frá því að lögin um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna voru samþykkt hefur markvisst verið unnið að innleiðingu þeirra á vegum ríkis og sveitarfélaga um allt land.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica