Viðbrögð við kynferðisofbeldi, heimildarmynd gefin út af Evrópuráðinu
Á alþjóðadegi barnsins, 20. nóvember, gaf Evrópuráðið út heimildarmynd um viðbrögð við kynferðisofbeldi á börnum þar sem íslenska Barnahúsið er þungamiðja umfjöllunarinnar.
Til að sjá myndbandið smelltu á myndina
Heimildarmyndin er liður í kynningu á bindandi samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðisofbeldi sem kenndur er við borgina Lanzarote á Spáni þar sem samningurinn var fyrst lagður fram til undirritunar árið 2007. Ísland undirritaði samninginn árið 2008 og fullgilti hann í september síðastliðinn en alls hafa nú 23 ríki fullgilt samninginn.
Lanzarote samningurinn er heildstæðasta og víðtækasta alþjóðasamþykktin sem gerð hefur verið um vernd barna gegn kynferðisofbeldi. Þannig tekur hann til forvarna, rannsókna mála, saknæmi brota, verndar og stuðnings sem þolendur brota skuli njóta ásamt fjölskyldna þeirra, úrræða fyrir kynferðisbrotamenn, alþjóðasamstarfs os.frv.
Starfssemi íslenska Barnahússins var fyrirmynd fjölmargra ákvæða samningsins, einkum þeim sem lúta að þverfaglegum viðbrögðum ólíkra stofnana er varðar rannsóknarviðtöl við börn í barnvinsamlegum aðstæðum. Þetta hefur verið frekar útfært í Leiðbeinandi reglum Evrópuráðsins um barnvinsamlegt réttarvörslukerfi.
Þess má geta að sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins (Congress of Regional and Local Authorities) samþykkti áætlun um framkvæmd Lanzarote samningsins í síðasta mánuði. Í samþykktinni er sérstaklega mælt með stofnun barnahúsa við héraðs- og sveitarstjórnir aðildarríki ráðsins.