112: Ekki hika – hringdu til öryggis
112-dagurinn verður haldinn um allt land laugardaginn 11. febrúar. Markmið dagsins er að kynna neyðarnúmerið og þá margvíslegu aðstoð sem almenningur hefur aðgang að í gegnum það. Að þessu sinni er áhersla lögð á að hvetja fólk til að hika ekki heldur hringja í 112 ef það telur sig þurfa á aðstoð að halda – til öryggis. Efnt er til dagskrár í Smáralind og hjá viðbragðsaðilum um allt land. 112-dagurinn er haldinn víða um Evrópu á sama tíma en 112 er samræmt neyðarnúmer í löndum Evrópusambandsins.Fjölbreytt dagskrá í Smáralind
Almenningi er boðið að kynna sér starfsemi viðbragðsaðila í Smáralind kl. 11-17 á laugardaginn. Þar verður fjölbreytt dagskrá. Fólk getur kynnt sér starfsemi viðbragðsaðila, rætt við starfsfólk og sjálfboðaliða, kynnt sér skyndihjálp og skoðað margvíslegan búnað. Á staðnum verða meðal annars bílar slökkviliðs og lögreglu, sprengjubíll og vélmenni Landhelgisgæslunnar, bílar, bátar, fallhlífarbúnaður og fleiri tæki björgunarsveita. Þannig ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.
Ljósmyndasýningin Útkall 2011
Úrval ljósmynda af hinum margvíslegu verkefnum viðbragðsaðila verður sýnt í Smáralind dagana 10.-17. febrúar. Þar er meðal annars að finna áhugaverðar myndir af lögreglu, slökkviliðsmönnum, björgunarsveitum, Rauða kross fólki og Landhelgisgæslunni að störfum árið 2011.
Athöfn í Smáralind kl. 14
Kl. 14 á laugardaginn verður stutt athöfn í göngugötunni í Smáralind og er öllum velkomið að vera við hana. Dagskrá:
• Ávarp: Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
• Verðlaun í Eldvarnagetrauninni 2011 afhent.
• Skyndihjálparmaður Rauða krossins 2011 útnefndur.
• Neyðarverði 112 veitt viðurkenning.
Hverjir standa að 112-deginum?
112-dagurinn er samstarfsverkefni stofnana og félagasamtaka sem annast margvíslega neyðarþjónustu, almannavarnir og barnavernd í landinu.
Þau eru:
112, Barnaverndarstofa, Embætti landlæknis, Isavia, Landhelgisgæslan, Landspítalinn, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Rauði krossinn, Ríkislögreglustjórinn, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og samstarfsaðilar um allt land.