Meistararitgerð um starfsmenn á stofnunum fyrir börn á vegum barnaverndaryfirvalda

28 okt. 2010

Bryndís S. Guðmundsdóttir, uppeldis- og kennslufræðingur og starfsmaður Barnaverndarstofu hefur rannsakað viðhorf starfsmanna sem vinna á sólarhringsstofnunum fyrir börn á vegum barnaverndaryfirvalda til eigin starfs. Rannsóknin var liður í meistaranámi höfundar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Höfundur naut leiðsagnar dr. Guðrúnar Geirsdóttur dósents við Háskóla Íslands. Stofnanirnar sem um ræðir eru reknar annars vegar af ríkinu og hins vegar af Reykjavíkurborg. Í ritgerðinni er fjallað um hvernig starf þetta er, um starfsánægju, erfiðleika í starfi, skuldbindingu við starfið og fagmennsku. Í rannsókninni er einnig skoðuð áhrif Breiðavíkurumræðunnar á viðhorf starfsmanna. Í lokin eru lagðar fram tillögur um úrbætur og frekari rannsóknir. Slík rannsókn hefur ekki verið gerð fyrr hér á landi og erlendis virðist það ekki vera algengt að sjónum sé beint að starfsmönnum þessara stofnana. Rannsóknina er hægt að nálgast á bókasafni Menntavísindasviðs, Háskóla Íslands – Skemman.is

Ágrip
Í þessari rannsókn er könnuð sýn starfsmanna, sem starfa á stofnunum barnaverndaryfirvalda, á eigið starf. Við rannsóknina er beitt aðferðum eigindlegrar rannsóknarhefðar. Fræðilegt sjónarhorn rannsóknarinnar er valið út frá fyrirbærafræðinni. Gagna var aflað með viðtölum við sjö þátttakendur sem höfðu fremur langa starfsreynslu. Markmiðið með rannsókninni var að öðlast skilning á því hvernig þátttakendur skynja hlutverk sitt og starf og að skoða áhrif Breiðavíkurumræðunnar á viðhorf þeirra til starfsins. Tilgangurinn var að öðlast frekari vitneskju um hvernig stuðningur þætti gagnlegur í starfinu sem og að ljá þessum hópi rödd í umræðunni.
Niðurstöður benda til þess að þátttakendur telja starfið vera ólíkt öðrum störfum, þar sem vinnudagurinn er ófyrirsjáanlegur, þeir beri mikla ábyrgð á annarra manna börnum og að þeir séu sjálfir „verkfærin“ í vinnunni. Starfið kallar á mikla nánd við skjólstæðinga og þétt samstarf í starfsmannahópnum. Starfið felur jafnt í sér umsjá sem svipar til foreldrahutverksins sem og fagleg viðbrögð við óvæntum atburðum og vegna vanda barnanna. Starfið er flókið og krefst þekkingar, reynslu, menntunar og endurmenntunar til að auka líkur á árangri, starfsánægju og faglegu sjálfstrausti. Besti stuðningurinn er talinn vera sá stuðningur sem samstarfsfólk veitir í vinnunni og stuðningur þeirra sem sjálfir hafa reynslu af slíkum störfum. Tengsl við skjólstæðinga og árangur eru þeir þættir sem veita einna mestu starfsánægjuna fyrir utan jákvætt starfsumhverfi þar sem góðir vinnufélagar skipta mestu. Jákvætt og skilningsríkt samstarf við starfsmenn yfirstofnana og barnaverndarnefnda og við foreldra var þeim mikilvægt. Breiðavíkurumræðan vakti tilfinningalegt umrót en þátttakendur efuðust samt ekki um framlag sitt. Þeir töldu þó að betra væri að vinna eftir opnum og skýrum verkferlum til að geta sýnt hver viðbrögð þeirra eru í viðkvæmum aðstæðum. Rannsóknin bendir til að þátttakendur telji nauðsynlegt að afla sér fagmenntunar og endurmenntunar í þeim tilgangi að efla sig í starfi. Með auknum yfirráðum yfir sameiginlegum faglegum orðaforða telja þeir sig betur í stakk búna til að skila góðu starfi til hagsbóta fyrir skjólstæðinga sína. Sterkar vísbendingar eru um að margir starfsmenn líti á starfið sitt sem drjúgan þátt í sínu lífsstarfi og að þeir beri hag barnanna fyrir brjósti.

Nýjustu fréttir

Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

02. feb. 2024 : Framhaldsnámskeið ætlað tengiliðum farsældar

Nú hefur verið opnað fyrir framhaldsnámskeið sem ætlað er tengiliðum farsældar.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica