Fræðslufundur Náum áttum 15. september nk
Samstarfshópurinn Náum áttum stendur reglulega fyrir opnum fundum um fræðslu-og forvarnarmál en aðilar að hópnum eru auk Barnaverndarstofu, Landlæknisembættið, Lýðheilsustöð, félag fagfólks í frítimaþjónustu FFF, Reykjavíkurborg, Vímulaus æska, Bindindissamtökin IOGT, Heimili og skóli, Umboðsmaður barna, FRÆ-fræðsla og forvarnir, Þjóðkirkjan, Barnaheill og Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu. Næsti fræðslufundur verður miðvikudaginn 15. september nk. á Grand-hótel kl. 8:15 – 10:00Að þessu sinni verður sjónum beint að eineltisáætlunum og hvað þurfi að koma til svo þær gangi upp. Framsöguerindi flytja þeir Guðjón Ólafsson, fræðslustjóri og Þorlákur H. Helgason, verkefnisstjóri OLWEUSAR verkefnisins á Íslandi. Nánari upplýsingar má sjá hér.
Einelti hefur fyrst og fremst slæm áhrif á sjálfstraust þess sem fyrir því verður. Það getur auk þess haft áhrif á námsárangur og valdið skólaleiða. Rannsóknir hafa sýnt fram á að þolendur eineltis hafa fleiri kvíða- og þunglyndiseinkenni en þau börn sem ekki hafa orðið fyrir einelti (heimild: www.regnbogaborn.is). Hægt er að nálgast gagnlegar upplýsingar um einelti, s.s. ráð til foreldra og viðbrögð skóla á vefsíðu regnbogabarna www.regnbogaborn.is og vefsíðu OLWEUSAR verkefnisins www.olweus.is.