Þekking á skyndihjálp skiptir sköpum
Þeir sem hafa farið á námskeið í skyndihjálp á síðustu þremur árum treysta sér miklu fremur en aðrir til að veita bráðveikum eða mikið slösuðum einstaklingi skyndihjálp. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Capacent Gallup gerði fyrir 112 í tilefni af 112-deginum, sem haldinn er í dag. Nær 80 prósent þátttakenda segjast hafa farið á námskeið í skyndihjálp en aðeins 27,1 prósent á síðustu þremur árum. Rúmlega fimmtungur hefur aldrei farið á námskeið í skyndihjálp. Mikill minnihluti fólks í þeim hópi segist myndu treysta sér til að veita ókunnugum, bráðveikum eða mikið slösuðum skyndihjálp, svo sem að beita hjartahnoði eða stöðva blæðingu.Aðkoma almennings að vettvangi slysa, veikinda og áfalla er viðfangsefni 112-dagsins að þessu sinni, en hann er haldinn 11. febrúar ár hvert. Fyrstu viðbrögð geta skipt miklu um afdrif fólks og hvernig til tekst með björgun. Þess vegna er mikilvægt að sem flestir kunni skyndihjálp og treysti sér til að veita hana þegar á reynir. Mælt er með því að fólk endurnýi þekkingu sína í skyndihjálp með nokkurra ára millibili.
Spurt var: Myndir þú treysta þér til að veita ókunnugum og bráðveikum eða alvarlega slösuðum einstaklingi skyndihjálp, svo sem að beita hjartahnoði eða stöðva blæðingu? Tveir þriðju svöruðu því játandi en þriðjungur sagðist ekki treysta sér til að veita skyndihjálp í slíkum aðstæðum.
Sláandi tengsl eru hins vegar milli þess hvort fólk hefur farið á skyndihjálparnámskeið og hvort það treystir sér til að hjálpa. Um 90 prósent þeirra sem hafa farið á námskeið á síðustu þremur árum svara játandi. Hlutfallið minnkar í 65 prósent ef lengra er um liðið og aðeins 37 prósent þeirra sem ekki hafa farið á námskeið sögðu já. Karlar eru líklegri en konur til að treysta sér til að hjálpa við áðurnefndar aðstæður.
Könnunin fór fram dagana 20.-27. janúar síðastliðinn. Notað var 1170 manna úrtak 16 ára og eldri af öllu landinu. Svarhlutfall var 75,5 prósent.
112-dagurinn er haldinn í fjölmörgum Evrópulöndum í dag. Samstarfsaðilar 112-dagsins á Íslandi eru 112, ríkislögreglustjórinn, Brunamálastofnun, slökkviliðin, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauði krossinn, Landhelgisgæslan, Barnaverndarstofa, landlæknisembættið, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Flugstoðir.
Nánari upplýsingar:
Dagný Halldórsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, í síma 820 1000
Garðar H. Guðjónsson verkefnisstjóri í síma 895 5807