Barnahús: Frá Nuuk til Barcelona!

5 nóv. 2009

Um þessar mundir er Barnahús ellefu ára. Lætur nærri að 2200 börn hafi notið þjónustu þess frá upphafi. Áhugi á hinu íslenska Barnahúsi erlendis hefur líklega aldrei verið meiri. Nýlega bárust fréttir þess efnis að Grænlenska landstjórnin hafi ákveðið að koma á fót Barnahúsi í Grænlandi. Síðastliðið sumar komu fulltrúar þarlendra stjórnvalda til að kynna sér starfsemina. Þá kynnti Þóra S. Einarsdóttir, sálfræðingur í Barnahúsi, starfsemi Barnahúss á ráðstefnu samtakanna Meeqqat Inuunerissut (Betra líf fyrir börn) sem haldin var í Nuuk í september sl. Í skýrslu af niðurstöðum fundarins má sjá að lagt er til að fjögur Barnahús verð starfrækt í Grænlandi en skýrsluna mál lesa hér. Þá hefur Þóra tekið saman stutta samantekt um ráðstefuna sem lesa má hér.

Eins og kunnugt er hefur Evrópuráðið samþykkt bindandi samning aðildarríkjanna um vernd barna gegn kynferðisofbeldi. Hugmyndafræði Barnahúss er þar gert hátt undir höfði og er í athugasemdum með samningnum er það eina dæmið sem vísað er til um „best practice“ um barnvænlega meðferð þessa málaflokks. Aðstoðarframkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Maud de Boer-Buquicciho, vísaði t.d. sérstaklega til þessa í ræðu sinni á fundi dómsmálaráðherra aðildarríkjanna í Toledo fyrr á þessu ári en ræðuna má lesa hér. Um 40 aðildarríki hafa nú undirritað samningin og undirbúa þau nú fullgildingu hans. Í því felst að yfirfara löggjöf á heimavígstöðum til að tryggja að innlend löggjöf sé í samræmi við ákvæði samningsins.

Í lok október stóðu spænsku samtökin Fundació Vicki Bernadet fyrir stórri ráðstefnu í Barcelone þar sem fjallað var um umbætur í réttarfari og meðferð mála er varðar kynferðisbrot gegn börnum. Braga Guðbrandssyni var boðið að halda einn aðalfyrirlestur ráðstefnunnar um Barnahús á Íslandi og ákvæði hins nýja samnings Evrópuráðsins. Á ráðstefnunni kom fram að verulegur áhugi er á meðal spánsks fagfólks um starfsemi Barnahúss en telja verður þó að þeir eigi langt í land svo takast megi að brjóta múra á milli ólíkra stofnana jafnframt því sem rótgrónar hefðir í spænsku réttarkerfi munu reynast fjötur um fót.

Í næstu viku er von á hópi sérfræðinga frá Óslo í heimsókn í Barnahús en þeir undirbúa nú starfsemi barnahúss þar. Verður það fimmta barnahúsið í Noregi en á síðustu árum hafa barnahús tekið til starfa í Bergen, Hamar, Kristiansand og í Þrándheimi. Í Finnlandi er unnið að undirbúningi að stofnun fyrsta barnahússins þar og heimsótti finnski dómsmálaráðherrann Barnahús í júlí sl. Þá má geta þess að fyrir stuttu kom stór hópur embættismanna frá eistneska félagsmálaráðuneytinu til Íslands, m.a. í því skyni að heimsækja Barnahús, en þeir hafa sýnt málinum mikinn áhuga lengi.

Loks er rétt að geta þess að barnahúsum í Svíþjóð heldur enn áfram að fjölga en barnahúsum hefur nú verið komið á fót í alls 16 borgum og fleiri eru væntanleg. Athyglisvert er að í Svíþjóð hefur verið ákveðið að starfsemi þeirra verði að nokkru leyti með ólíku sniði og er í gangi skipulegt árangursmat á starfseminni.

Nýjustu fréttir

15. maí 2024 : Stöðuskýrsla til ráðherra á þriðja ári innleiðingar

Frá því að lögin um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna voru samþykkt hefur markvisst verið unnið að innleiðingu þeirra á vegum ríkis og sveitarfélaga um allt land.

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica