Reynslan af fjölkerfameðferð (MST) á Íslandi

25 maí 2009

Um miðjan maí voru liðnir 6 mánuðir frá því að MST teymi tók til starfa á vegum Barnaverndarstofu. Eins og fram hefur komið er MST gagnreynd aðferð til að meðhöndla alvarlegan hegðunarvanda unglinga á aldrinum 12-18 ára. MST fer fram á heimili fjölskyldunnar og gerir þá kröfu að barnið búi þar. Meðferðin felst í að efla styrkleika kerfanna í kringum barnið, sem eru fjölskylda, félagahópur, skóli og nærumhverfi. MST-þerapistinn er í ysta hring þessara kerfa enda kemur hann við sögu í skamman tíma, í 3-5 mánuði. Meðferðarinngripin eru hins vegar gerð með það fyrir augum að þau leiði til alhæfingar meðferðarárangurs og breytinga til lengri tíma.

MST hvílir á þremur meginstoðum: Leiðbeinandi fjölskyldumeðferð (strategic og structural family therapy), atferlismótun og hugrænni atferlismeðferð. Lögð er áhersla á að foreldrar fylgist með barninu og beiti jákvæðum afleiðingum við æskilegri hegðun. Áhersla er á aukna samheldni og bætt samskipti innan fjölskyldunnar og samráð lykilaðila í umhverfi barnsins. Markmið MST meðferðar eru aðgerðatengd og beinast að afmörkuðum og vel skilgreindum vandamálum miðað við stöðuna eins og hún er í dag. Yfirmarkmið eru ákveðin í samráði við barn, foreldra, skóla og viðkomandi barnaverndarstarfsmenn. Greining og mat felast vikulega í að meta hvernig vandamálin tengjast í stærra samhengi mismunandi kerfa. Metið er vikulega hvaða hindranir eru á veginum, að hve miklu leyti yfirmarkmiðum er náð og hvaða undirmarkmiðum skuli stefnt að í næstu viku. Árangur meðferðarinnar er metin útfrá því að yfirmarkmiðum sé náð og að árangur hafi haldist stöðugur um 4-8 vikna skeið.

Eins og fram hefur komið er MST í boði á suðvesturhorninu eða fyrir rúma 3/4 hluta landsmanna. Þjónustusvæðið spannar um það bil frá Borgarnesi yfir höfuðborgarsvæðið og Reykjanes að Selfossi. Grunneining í MST er meðferðarteymi (3-4 þerapistar og teymisstjóri) sem þarf að vera staðsett á sama stað. Miðað við fjölda umsókna til Barnaverndarstofu um sérhæfða meðferð undanfarin ár er ekki fyrirsjáanlegt að MST-teymi hefði næg verkefni í dreifðari byggðum.

Sextán fjölskyldur hafa nú farið í gegnum MST meðferð og flestar þeirra náð að ljúka meðferðinni. Sautján fjölskyldur eru í meðferðinni en aðrir þurfa að bíða þar sem ekki verður hægt að bæta við nýjum málum fyrr en með haustinu. Meðferðartíminn hefur að meðaltali verið um 4 mánuðir sem telst eðlilegt miðað við MST framkvæmdina í öðrum löndum. Það er sérstakt fagnaðarefni að meðalaldur barnanna sem fá MST meðferð hér er um 14,4 ár eða um 1-2 árum lægri en meðalaldur barna á Stuðlum og öðrum meðferðarheimilum Barnaverndarstofu. Mest munar þar um aldurshópinn 12-13 ára (sem hefur jafnan verið talinn of ungur til að vistast á meðferðarstofnunum). Vart þarf að taka fram kosti þess að geta gripið þetta miklu fyrr inn í þróun alvarlegs hegðunarvanda. Vegna þess að meðferðin fer fram á heimilum og nærumverfi fjölskyldna eru bein og jákvæð áhrif á önnur börn á heimilinu. Athygli vekur að meirihluti þeirra sem vísað hefur verið í MST til þessa hér á landi eru drengir.

Árangurinn af MST til þessa hér á landi verður að teljast mjög góður. Staða MST-heildarmarkmiða hjá þeim börnum sem hafa lokið meðferð er eftirfarandi (tölur vísa í stöðuna áður en meðferð hófst og eftir að henni lauk):

•Býr heima eða í öðrum viðurkenndum heimilisaðstæðum: Áður 100% / Eftir 100%
•Er í skóla eða vinnu: Áður 14.3% / Eftir 78,6%
•Kemst ekki í kast við lögin: Áður 14.3% / Eftir 78,6%
•Notar ekki vímuefni eða misnotar ekki áfengi: Áður 57,1% / Eftir 78,6%
•Beitir ekki ofbeldi eða hótunum um ofbeldi: Áður 14,3% / Eftir 78,6%

Eins og fram hefur komið eru þessu heildarmarkmið aftur metin 6, 12 og 18 mánuðum eftir lok meðferðar. Við lok meðferðinnar eru einnig metnir svokallaðir áhrifaþættir í árangri. (Er þar vísað í þætti sem niðurstöður fjölmargra MST rannsókna hafa sýnt að hafi afgerandi áhrif á ofangreind heildarmarkmið). Áhrifaþættirnir eru metnir í samráði við foreldra, barnaverndarstarfsmann og aðra lykilaðila í umhverfi fjölskyldunnar (prósentutölur tákna hlutfall fjölskyldna sem luku meðferð og náðu umræddum árangri):

• Þerapisti og teymisstjóri sjá merki þess að foreldrar hafi bætt færni sína til að takast á við aðsteðjandi vandamál: 85,7%
• Það eru merki um bætt samskipti og tengsl fjölskyldumeðlima í undirkerfum fjölskyldunnar sem voru orsakavaldar fyrir hegðun barns: 92,9%
• Fjölskyldan hefur eflt tengslanet sitt og aðgengi að óformlegun félagslegum stuðningi í umhverfi sínu og sýnir aukna hæfni í að nálgast þann stuðning (óformlegan eða formlegan) sem hún þarf: 100%
• Barnið sýnir marktækar framfarir í að takast á við skóla eða vinnu: 85,7%
• Barnið umgengst æskilegan félagahóp, tekur þátt í félagsvænum athöfnun og samskipti við einstaklinga í vanda eru í lágmarki: 78,6%
• Breytingar hafa orðið á hegðun barns og í þeim kerfum sem höfðu áhrif á vandann og hefur sá árangur haldist stöðugur undanfarnar 3-4 vikur: 78,6%

Nýjustu fréttir

Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

02. feb. 2024 : Framhaldsnámskeið ætlað tengiliðum farsældar

Nú hefur verið opnað fyrir framhaldsnámskeið sem ætlað er tengiliðum farsældar.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica