Stöndum við vörð um velferð barna?

30 jan. 2009

Samstarfshópurinn „Náum áttum“ stóð fyrir fræðslufundi á Grand hótel 28. janúar sl. undir yfirskriftinni „Stöndum við vörð um velferð barna? Var fundurinn vel sóttur en fyrirlesarar voru Ólafur Ó. Guðmundsson, yfirlæknir á BUGL, Björk Einisdóttir, framkvæmdastjóri Heimili og skóla og Þórólfur Þórlindsson, forstjóri Lýðheilsustöðvar.

Í erindi sínu fjallaði Ólafur um kreppu og geðheilsu þar sem hann beindi sjónum að áhrifum efnahagskreppu á geðheilsu barna. Vísaði hann í þjóðhagsspá þar sem fram kemur að þjóðarframleiðsla og kaupmáttur mun rýrna og atvinnuleysi aukast. Á sama tíma hefur geðheilbrigðisþjónusta verið skert í ljósi niðurskurðar útgjalda og óvissa er með stuðningsúrræði sveitarfélaga og ríkisstofnanna. Þá vísaði hann í niðurstöður rannsókna í Bandarríkjunum og Finnlandi sem hafa sýnt fram á tengsl heilbrigðis og líðan barna við félagslega- og efnahagslega stöðu. Ólafur vitnaði í ályktun Unicef frá 2007 þar sem „Hin rétta mæling á stöðu þjóðar er hversu vel hún sinnir börnum sínum – heilsu þeirra og öryggi, efnislegum þörfum þeirra, menntun þeirra og félagsmótun og tilfinningu þeirra fyrir að vera elskuð, virt og hluti af þeirri fjölskyldu og samfélagi sem þau fæðast til“. Þá kom hann inn á helstu áhættuþætti varðandi geðheilsu barna í ljósi efnahagsþrenginga hér á landi en fjárhagsálag hefur áhrif á: Uppeldi, þ.e. trufluð tengsl foreldris og barns; samskipti foreldra, þ.e. árekstrar milli maka og hjónabandsdeilur; og geðheilsu foreldra, þ.e. sinnuleysi, þunglyndi, reiði og ýgi. Þá benti hann á hina verndandi þætti: Tengsl barna og foreldra (samvera, umræður/útskýringar og samkvæm mörk); félagslega öryggisnetið (fjárhagur ss. bætur og útivinnandi foreldrar, opinber þjónusta sem hefur áhrif á bætta geðheilsu foreldra og samskipti þeirra); og efld geðheilbrigðisþjónusta (heilsugæsla, sérfræði- og sjúkrahúsþjónusta).

Björk lýsti því að foreldrar leiti nú meira til landssamtakanna Heimili og skóli um ráðgjöf og þá helst vegna mála er varða andlega heilsu barna frekar en mál sem tengjast námi barnanna beint eða námslegum þáttum. Þurfa margir foreldrar stuðning i samskiptum sínum við skólann og aðrar stofnanir. Benti hún á að álagið sé mikið á börnum, foreldrum og starfsfólki skólanna í þeirri efnahagskreppu sem við glímum við. Þá er mikilvægt að standa vörð um stuðningsúrræði innan skóla s.s. skólahjúkrunarfræðinga og námsráðgjafa. Þetta eru aðilar sem börn geta leitað til milliliðalaust og hefur heimsóknum til hjúkrunarfræðinga fjölgað um 30% síðustu þrjá mánuði ársins 2008 samanborið við sama tímabil árið 2007. Eineltismál falla undir andlega þáttin sem er stór hluti ráðgjafar Heimilis og skóla og vantar foreldrum stuðning þegar kemur að eineltismálum í skólum þar sem samskipti eru oft erfið. Björk lagði áherslu á að í þeim tilvikum þar sem skera á niður í skólum þurfi að hafa samráð við foreldra strax og hafa þá með í ráðum. Samtökin Heimili og skóli eru mikilvægir tengiliðir í samstarfi heimila og skóla t.d. í forvörnum sem tengjast einelti og örugga netnotkun. Hún vék að stöðu forsjárlausra foreldra gagnvart skólagöngu barna sinna, skólamáltíðum og sagði frá ályktunum og hvatningarorðum sem samtökin hafa sent frá sér að undanförnu um almenna velferð og öryggi nemenda.

Þórólfur sagði frá félagsfræðilegum rannsóknum og talaði um félgsleg áhrif uppsveiflu og kreppu. Hann skilgreindi hugtakið siðrof þar sem fólk hættir að huga að þeim gildum sem hafa verið í samfélaginu og traust til stofnana, stjórnunvalda og fjölmiðla minnkar. Afleiðingarnar komu strax í því góðæri sem ríkti á undanförðum árum en í kreppunni verður að vinna að því að endurheimta eða byggja upp traust svo fólk sé aftur tilbúið að lifa og taka þátt í því félagslega umhverfi sem hentar samfélaginu best á hverjum tíma. Hann lagði áherslu á nærsamfélagið og mikilvægi þess að efla félagsauð.

Nýjustu fréttir

15. maí 2024 : Stöðuskýrsla til ráðherra á þriðja ári innleiðingar

Frá því að lögin um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna voru samþykkt hefur markvisst verið unnið að innleiðingu þeirra á vegum ríkis og sveitarfélaga um allt land.

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica