Ótímabær andlát forsjáraðila með fíknisjúkdóma

10 jún. 2008

Eins og kunnugt er hafa fjölmiðlar fjallað undanfarið um aðstæður barna í kjölfar andláts forsjáraðila sem glímt hafa við fíknisjúkdóma. Í þeirri umræðu hafa komið fram upplýsingar og sjónarmið sem benda til að alvarlegt ástand kunni að hafa skapast sem varla eigi sér hliðstæðu varðandi öryggi barna þeirra foreldra sem um ræðir, einkum barna sem lúta forsjá einstæðra mæðra með fíknisjúkdóma. Í ljósi ofangreinds taldi Barnaverndarstofa óhjákvæmilegt að afla upplýsinga á landsvísu um ástand þessara mála.

Athugunin leiddi í ljós að barnaverndarnefndir komu að málum 6 mæðra og eins föður sem höfðu haft forsjá barns og létust af völdum vímuefnaneyslu og geðræns vanda á árinu 2007 og til loka maí yfirstandandi árs. Þessir foreldrar áttu samtals 12 börn sem þeir höfðu forsjá yfir. Að auki komu fram upplýsingar um andlát fjögurra foreldra af sömu ástæðum, sem ekki höfðu forsjá barna sinna. Um er að ræða tvær mæður og tvo feður sem samtals áttu 7 börn sem ýmist lutu forsjá hins foreldrisins, náinna aðstandenda eða annarra fósturforeldra. Rétt er að taka fram að þessar tölur eiga við um allt landið þótt þorri málanna sé úr Reykjavík.

Athugunin leiddi jafnframt í ljós að ekki er hægt að greina neina félagslega þætti sem einkenna þennan hóp umfram neysluvanda. Þannig létust forsjáraðilar á ólíkum aldri, eða frá 20 til rúmlega 50 ára aldurs. Þá voru aðstæður þessara aðila mismunandi fyrir andlát; í sumum tilvikum hafði neysla ekki verið fyrir hendi í langan tíma þar til skömmu fyrir andlát, í öðrum tilvikum hafði neysla verið viðvarandi og dæmi er jafnframt um að barnaverndarnefnd hafi ekki öðlast vitnesku um neysluvanda foreldris fyrr en eftir andlát þess.

Í svörum barnaverndarnefnda landsins við fyrirspurn Barnaverndarstofu kom fram að fjölmargir foreldrar sem nefndirnar hafa nú afskipti af geti talist í lífshættu vegna neyslu á áfengi og öðrum vímuefnum.

Barnaverndarnefndum er mikill vandi á höndum við meðferð mála foreldra sem glíma við fíknisjúkdóma. Að sjálfsögðu verður öryggi barns og velferð þess að sitja í fyrirrúmi í öllum afskiptum barnaverndaryfirvalda. Á hitt ber að líta að foreldrar með fíknisjúkdóm eru almennt ekki lakari foreldrar en aðrir, takist þeim að halda sig frá vímugjöfum. Því er til mikils vinnandi að styðja þessa foreldra til að leita sér meðferðar við sjúkdómi sínum og viðhalda heilbrigðu lífi svo þeir geti axlað uppeldisábyrgð sína eins vel og frekast er kostur. Barnaverndarstarfsmenn þekkja betur en flestir aðrir hin fjölmörgu dæmi þess að foreldrar hafi náð fullkomnum tökum á sjúkdómi sínum, m.a. með hjálp meðferðarstofnana, og í kjölfarið reynst börnum sínum eins góðir foreldrar og best verður á kosið.

Barnaverndarstofa mun á næstu mánuðum leita leiða til að styrkja starf barnaverndarnefnda í þessum vandasömu störfum.

Nýjustu fréttir

15. maí 2024 : Stöðuskýrsla til ráðherra á þriðja ári innleiðingar

Frá því að lögin um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna voru samþykkt hefur markvisst verið unnið að innleiðingu þeirra á vegum ríkis og sveitarfélaga um allt land.

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica