Ný lög um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum

30 jún. 2006

Þann 1. júlí tóku í gildi ný lög um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum. Með nýjum lögum falla eldri lög um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldismyndum úr gildi og verður starfsemi Kvikmyndaskoðunar lögð niður frá sama tíma. Með nýjum lögum er Barnaverndarstofu ætlað nokkuð hlutverk m.a. hvað varðar að hafa eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt. Lögin fela Barnaverndarstofu jafnframt fleiri verkefni sbr. það sem nánar segir í fréttinni. Umsjón með þessu verkefni hefur Guðjón Bjarnason sálfræðingur á Barnaverndarstofu en hann hefur setið í Kvikmyndaskoðun frá árinu 1995.

Samkvæmt nýjum lögum skulu aðilar sem framleiða kvikmyndir eða tölvuleiki til sýningar eða sölu hér á landi, eða hafa kvikmyndir eða tölvuleiki til sýningar, leigu, sölu eða annarrar dreifingar, í atvinnuskyni hér á landi, taka við því hlutverki sem Kvikmyndaskoðun gegndi samkvæmt eldri lögum.

SMÁÍS (Samtök Myndrétthafa á Íslandi) mun við gildistöku nýrra laga annast samræmingu merkinga og semja verklagsreglur sinna félagsmanna sem gera má ráð fyrir að verði fyrirmynd annarra verklagsreglna. Undir samtökin heyra þeir sem selja og dreifa meira en 95% alls myndefnis og tölvuleikja hér á landi. Samtökin munu koma upp miðlægum gagnagrunni þar sem niðurstöður mats verða birtar opinberlega. Þar getur almenningur aflað sér upplýsinga um niðurstöðu aldursmerkinga einstakra kvikmynda, þátta eða tölvuleikja. Einnig verður komið upp verklagi fyrir kvörtunarferli. Þá mun SMÁÍS einnig taka við gagnagrunni sem Kvikmyndaskoðun hafði áður undir höndum og hafa hann til birtingar samhliða nýskráðu efni.

Frá 1. júlí munu nýjar merkingar um aldursflokkun á kvikmyndum sem gefnar eru út á DVD/VHS formi eða eru sýndar í kvikmyndahúsum bera fyrir sjónir almennings. Á komandi mánuðum munu sömu merkingar einnig ná yfir sjónvarpsefni. Við flokkun tölvuleikja verður áfram stuðst við svokallaðar PEGI merkingar sem er samevrópskt flokkunarkerfi. Merking samkvæmt því kerfi hefur verið notað um nokkurn tíma hér á landi.

Fyrir liggur að merkingar kvikmyndaefnis munu byggja á tveimur aðskildum en samverkandi þáttum. Fyrri þátturinn er aldursflokkun en aldursflokkarnir eru: “L” (leyfð), “7”, “12”, “16” og “18”. Hinn þátturinn eru efnisvísar kvikmyndar. Fjöldi efnisvísa verður sennilega sex. Í efnisvísum kemur fram ástæða þess að myndefnið telst ekki við hæfi barna innan tiltekins aldurs. Efnisvísarnir eru: ofbeldi, kynlíf, fíkniefni, hræðsluvekjandi atvik, fordómar/misrétti og blótsyrði.

Aldursflokkun munu áfram halda þeim lit sem Kvikmyndaskoðun hefur notað í gegnum árin og þannig verður merki aldursflokksins “L” (leyfð) grænt að lit o.s.frv. Allar merkingar fyrir myndefni verða kringlóttar og er þannig skilið á milli aldursmerkinga myndefnis og aldursmerkinga tölvuleikja sem verða ferkantaðar.

Barnaverndarstofa hefur eins og áður segir eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt. Í því skyni er stofunni heimilt að láta fara fram úttekt á framkvæmd verklagsreglna o.s.frv. Barnaverndarstofa mun einnig endurmeta efni sem þegar hefur verið metið ef grunur þykir leika á að niðurstaða hafi ekki verið málefnaleg eða í ósamræmi við verklagsreglur um skoðun myndefnis. Stofan getur á meðan á því stendur stöðvað sýningu eða dreifingu efnisins. Að öðru leyti hefur Barnaverndarstofa almennt eftirlit með því að ákvæðum laga um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum sé framfylgt

Smelltu hér til að lesa lögin

Nýjustu fréttir

15. maí 2024 : Stöðuskýrsla til ráðherra á þriðja ári innleiðingar

Frá því að lögin um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna voru samþykkt hefur markvisst verið unnið að innleiðingu þeirra á vegum ríkis og sveitarfélaga um allt land.

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica