Lokað svæði tekið í notkun
Nú hefur Barnaverndarstofa tekið í notkun lokað svæði á heimasíðu stofunnar fyrir allar barnaverndarnefndir landsins og starfsmenn þeirra ásamt Barnaverndarstofu, Barnahúss og meðferðarheimila á vegum stofunnar. Tilgangurinn er sá að skapa vettvang fyrir skoðanaskipti, umræður og miðlun upplýsinga sem einvörðungu á erindi til þeirra sem starfa að barnavernd og eftir atvikum annars fagfólks sem ástæða þykir að hafi aðgang að svæðinu. Jafnframt verður á lokaða svæðinu að finna ýmis gögn sem barnaverndarnefndir þurfa á að halda.Óþarft ætti að vera að fjölyrða um mikilvægi þess að fagfólk í barnavernd eigi sér vettvang þar sem það getur deilt reynslu sinni og skoðunum í þessum viðkvæma málaflokki. Með tölvusamskiptum á lokuðu svæði má með auðveldum hætti leita eftir eða koma á framfæri upplýsingum og ábendingum, viðra hugmyndir og láta í ljós skoðanir um allt það sem lýtur að barnavernd og notandi telur að skipti máli fyrir þá sem hafa aðgang að svæðinu. Getur hver notandi hafið máls á því viðfangsefni sem hann kýs og geta þá aðrir tekið þátt í umræðunni með því að bregðast við undir þeirri fyrirsögn sem málshefjandi velur.
Barnaverndarstofa vonast sérstaklega til þess að fagfólk í barnavernd komi á framfæri ábendingum um atriði sem lúta að starfsemi á vegum stofunnar, hvað vel sé gert og hvað miður og hvernig betur sé unnt að koma til móts við þarfir barnaverndarnefnda og skjólstæðinga þeirra.