Fyrirlestur um meðferðarheimili
"Meðferð fyrir unglinga á stofnunum – hvað segja rannsóknir“Fimmtudaginn 12. ágúst kl. 09.00 – 12.00 nk. mun norski sálfræðingurinn Tore Andreassen halda fyrirlestur á Barnaverndarstofu.
Tore Andreassen hefur unnið í barnaverndarmálum og á meðferðarstofnunum fyrir börn í Noregi í áraraðir. Að undanförnu hefur hann aðallega unnið að greiningum á börnum í vanda í Bodö auk þess sem hann hefur átt sæti sem sérfræðingur í “fylkisnefndum”, en þær nefndir hafa m.a. það hlutverk að taka þvingunarákvarðanir í barnaverndarmálum, t.d. um að barn eigi að vistast á stofnun gegn vilja sínum og/eða foreldra. Hann hefur m.a. ritstýrt skýrslu, (Behandling av ungdom i institusjonar Hva sier forskningen?) sem gerð var af Norðmönnum og Svíum þar sem skoðaðar voru niðurstöður mikils fjölda rannsókna, bæði alþjóðlegar og frá Norðurlöndum, um árangur af meðferð fyrir unglinga á stofnunum. Skýrslan er fjármögnuð af barna og fjölskylduráðuneytinu í Noregi, stjórn þeirra sem fóru með málefni meðferðarstofnana í Noregi (Statens institusjonsstyrelse) og sænskri rannsóknarstofnun (Centrum för utvärdering av socialt arbete). Í skýrslunni er fjallað ítarlega um hvað það er sem virkar vel í meðferð, hvað það er sem ekki virkar, hvað beri að varast og hvert beri að stefna í meðferðarmálum fyrir unglinga. Í skýrslunni er því að finna mikla þekkingu á eðli meðferðarstarfsins á stofnunum og yfirsýn yfir helstu rannsóknir sem til eru á þessu sviði.
Tore Andreassen er nú í forsvari fyrir tilraunaverkefni um “fyrirmyndarstofunun” þar sem tekið er tillit til niðurstöðunnar í fyrrnefndri skýrslu.
Tore Andreassen mun fjalla um þetta efni á fundi norrænna félagsmálaráðherra, sem haldinn verður hér á landi í næstu viku. Hann hefur tekið vel í beiðni Barnaverndarstofu um að halda einnig fyrirlestur fyrir starfsfólk meðferðarheimila, barnaverndarstarfsmenn og aðra sem áhuga hafa á efninu.
Í fyrirlestrinum 12. ágúst mun Tore Andreassen fjalla um skýrsluna og segja frá hugmyndum sem verið er að vinna að við undirbúning “fyrirmyndarstofnunarinnar”.
Glærur-pdf