MST, tilraunaverkefni til að fást við vanda unglinga

5 maí 2003

Eitt verkefna Barnaverndarstofu er að stuðla að því að fram fari þróunarstarf á sviði barnaverndar. Í því augnamiði hefur stofan hafið könnun á þeim möguleika að tekin verði upp aðferð til að fást við hegðunarvanda barna sem nefnd er á ensku Multisystemic Therapy/Treatment, skammastafað MST.

Aðferðin og fræðilegur grunnur hennar er þróuð við læknadeild háskólans í Charleston í Suður Karólínu í Bandaríkjunum af Scott Henggeler og samstarfsmönnum. Hún byggir m.a. á félagstengslakenningum Bronfenbrenners. Með aðferðinni er með nýstárlegum hætti fengist við vanda unglinga sem sýna andfélagslega hegðun, fremja afbrot, neyta fíkniefna o.s.frv. Aðferðin er afar markmiðsmiðuð og hagnýt og er alfarið beitt í því umhverfi sem einstaklingar lifa og hrærast í. Barnið fer því ekki af heimili sínu.

Markmið felast í:
Að draga úr afbrotum meðal unglinga, fíkniefnaneyslu og koma í veg fyrir að koma þurfi til þess að ráðstafa barni utan heimilis,
· Að bæta hæfni forsjármanna við að setja barni nauðsynleg mörk og koma lífi þess í fastar skorður,
· Að bæta samskipti í viðkomandi fjölskyldu,
· Að rjúfa óheillavænleg félagatengsl (hópamyndum),
· Bæta skólaaðstæður og möguleika til tómstunda,
· Að hvetja barn og aðstoða við að fást við hvers konar uppbyggileg viðfangsefni,
· Stuðla að því að í nánasta félagsumhverfi barns nái að þróast og viðhaldast heilbrigð tengsl þar sem fjölskylda, skóli, nágrannar, vinir og hjálparaðilar hvers konar geta átt hlut að máli.

Níu meginatriði aðferðarinnar:
Vettvangur íhlutunar er gervallt (félags) umhverfi barns, heimili, skóli, nágrenni heimilis, heimili skyldmenna, tómstundastaðir o.s.frv. Íhlutunin er markmiðsmiðuð, þar sem áhersla er á að aðgerðabinda viðfangsefnið frá degi til dags.

Nánar tiltekið felst aðferðin í eftirfarandi:
· Aðalviðfangsefni er að öðlast skilning á tengslum „óæskilegrar hegðunar” við það umhverfi sem barnið lifir og hrærist í,
· Lögð er áhersla á jákvæðni í hvívetna í nánasta umhverfi barns (fjölskyldu) þar sem styrkur hvers og eins er aðalatriði,
· Íhlutun fæst við að ná fram ábyrgð hvers og eins og draga úr ábyrgðarlausri hegðun allra sem hlut eiga að máli,
· Íhlutun fæst við viðfangsefni og atburði„dagsins í dag”,
· Íhlutun fæst við að skilja gagnvirk áhrif félagskerfis og skjólstæðings sem eru til þess fallin að viðhalda óæskilegri hegðun,
· Íhlutun tekur tillit til getu, þarfa og þroskastigs skjólstæðings,
· Íhlutun gerir ráð fyrir daglegri eða vikulegri þátttöku fjölskyldumeðlima án þess að einstaklingum sé ofgert,
· Þátttakendur eru upplýstir jafnóðum um áhrif meðferðar og mat á árangri,
· Íhlutun og aðferðir miðar að varanlegum breytingum sem nái að yfirfærast á aðrar sambærilegar aðstæður og taldar eru orsök óæskilegrar hegðunar. Stefnt er að því að styrkja sjálfsöryggi og getu uppalenda skjólstæðings til að fást sjálfir við vandamál sem kunna að koma upp í framtíðinni.

Framkvæmd
Lýsing á framkvæmd er fengin úr norskum gögnum og greinir frá því hvernig henni er háttað þar í landi. Framkvæmd MST í Noregi er þannig háttað að myndað er teymi manna sem hafa sérhæft sig í að beita aðferðinni. Teymið mynda þrír starfsmenn eða fleiri, eftir aðstæðum, þó ekki fleiri en fimm. Hver þeirra fær í senn til úthlutunar mál 3-6 skjólstæðinga. Mjög er vandað til vals á meðferðarmönnum sem og allrar þjálfunar. Bakgrunnur þeirra er gjarnan á sviði hóp- eða fjölskyldumeðferðar en einnig einstaklingsmeðferðar. Allir meðferðarmenn teymisins eru í tengslum við handleiðara sem liðsinnir mörgum þeirra samtímis. Sá er í virkum tengslum við sérfræðinga í USA og haldnir símafundir vikulega þeirra í milli. Starfið fer að verulegu leyti fram inni á heimili unglingsins en einnig utan þess þ. á m. í samskiptum við hvern þann sem hefur samneyti við unglinginn, vini, kennara, skyldmenni, þá sem veita meðferð, nágranna, lögreglumenn o.s.frv. Meðferðarmenn eru til ráðstöfunar allan sólahringinn ef því er að skipta. Verkefninu eru sett tímamörk, 5-6 mánuðir. Þannig getur hver starfmaður árlega afkastað málum allt að 12 skjólstæðinga. Einn kostur aðferðarinnar er m.a. sá hve vel vinnan nýtist öðrum en þeim unglingi sem á hlut að máli, svo sem systkinum, vinum ofl.

Reynslan af aðferðinni í Noregi hefur orðið með þeim hætti að henni er nú beitt um gervallt landið. Nú stendur yfir rannsókn á málum nokkur hundruð skjólstæðinga í Noregi. Viðræður starfsmanna Barnaverndarstofu við aðstandendur verkefnisins í Noregi bendir til þess að veruleg ánægja sé með aðferðina og árangur hennar þar í landi, raunar svo að leitt geti til varanlegra breytinga í félagslegu hjálparstarfi þar í landi þegar málefni unglinga í vanda eru annars vegar.

Viðræður hafa átt sér stað við barnavernd Reykjavíkur um samstarf til að hrinda verkefninu úr vör hér á landi. Barnaverndarstofa hefur einnig átt viðræður við félagsmálaráðuneytið í þessa veru og hafa viðbrögð orðið jákvæð. Sótt hefur verið um fjárveitingu til undirbúnings verkefninu á fjárlögum ársins 2004.


Nýjustu fréttir

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

02. feb. 2024 : Framhaldsnámskeið ætlað tengiliðum farsældar

Nú hefur verið opnað fyrir framhaldsnámskeið sem ætlað er tengiliðum farsældar.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica