Aukning mála í Barnahúsi

16 feb. 2003

Barnahúsi hafa aldrei áður borist jafn mörg mál er varða kynferðisofbeldi gegn börnum og það sem af er þessu ári. Það að fjöldi mála, sem berast til Barnahúss hafi farið vaxandi, þýðir þó ekki að kynferðisofbeldi gagnvart börnum fari vaxandi hér á landi. Fjölgunin bendir hins vegar til þess að fólk sé meira vakandi fyrir glæpum af þessu tagi. Einnig má ætla að betra aðgengi að þjónustu, er varð með tilkomu Barnahúss hafi sitt að segja. Má benda á til samanburðar að í Danmörku, þar sem íbúar eru 20 sinnum fleiri en á Íslandi kemur upp svipaður fjöldi mála á ári og hér. Þar, hinsvegar, er kerfið miklu þyngra í vöfum hvað varðar aðstoð fyrir meinta þolendur kynferðisofbeldis.

Með tilkomu Barnahúss á Íslandi varð öll þjónusta við börn sem meinta þolendur kynferðisofbeldis markvissari. Fyrir stofnun Barnahúss þurfti barn að mæta til "yfirheyrslu" til margra mismunandi aðila; til starfsmanns barnaverndarnefndar, lögreglu og svo til dómara, auk lækna og meðferðaraðila. Þurfti barnið því að endurtaka sögu sína margoft. Með tilkomu Barnahúss fóru þessir aðilar að samnýta framburð barnanna og þar með minnka töluvert álagið á barninu sem endurtekinn vitnisburður óhjákvæmilega fól í sér

Þegar starfsmaður barnaverndarnefndar fær tilkynningu um meint kynferðisofbeldi, gerir hann frumathugun í málinu. Ræðir við tilkynnanda, aflar upplýsinga um barnið frá skóla/leikskóla og gagna um heilsufar þess. Niðurstöður athugunar sendir starfsmaður til Barnahúss ásamt útfylltu tilvísunarblaði. Jafnvel þó að mjög veikar grunsemdir vakna um kynferðisafbrot getur barnaverndarnefnd óskað eftir aðstoð sérfræðinga Barnahúss við athugun málsins með könnunarviðtali við barnið. Með þessu er athugað gaumgæfilega hvort kynferðisofbeldi kann að hafa átt sér stað, eitthvað sem er mikilvægt bæði barni og aðstandendum þess. Má segja að með tilkomu Barnahúss hafi þeim málum fjölgað sem eru könnuð frekar, án þess að barn hafi greint sjálft frá ofbeldinu.

Í dag er sérútbúin aðstaða til skýrslutöku í Barnahúsi, héraðsdómi Reykjavíkur og héraðsdómi Norðurlands eystra. Fara skýrslutökur fram á þessum þrem stöðum. Að auki er héraðsdómur Reykjaness tengdur Barnahúsi með fjarfundabúnaði. Kemur barnið þá í Barnahús ásamt forráðamönnum sínum en þeir aðilar sem þurfa að fylgjast með skýrslutökunni eru staddir í húsnæði dómsins í Hafnarfirði. Í Barnahúsi eru sérfræðingar sem hafa fengið þjálfun í að taka rannsóknarviðtöl (forensic interviews), en það er stöðluð aðferð til að taka viðtöl við meinta þolendur, sem að baki liggja ýtarlegar rannsóknir. Að meðaltali hefur um helmingur allra mála barna undir 14 ára aldri verið kannaður í Barnahúsi, þau ár sem það hefur verið starfandi. Í dag er þó rúmur helmingur mála barna undir 14 ára aldri send til Barnahúss. Héraðsdómur Norðurlands eystra sendir yfirleitt ekki mál til Barnahúss, en kallar oft til sérfræðing frá Barnahúsi til þess að taka viðtölin, eða til að aðstoða við skýrslutökuna. Margir dómarar við héraðsdóm Re
ykjavíkur nýta sér aðstöðu Barnahúss og í nokkrum tilvikum hafi sérfræðingar Barnahúss verið fengnir til að taka skýrslu í dómshúsi. Ekki sjá allir dómarar héraðsdóms Reykjavíkur og Norðurlands eystra ástæðu til að nota Barnahús, né sérfræðinga þess. Eru þeir þó ekki margir sem hafa þá skoðun, sérstaklega er kemur að börnum undir 14 ára aldri.
Hlutverk Barnahúss er ekki einungis fólgið í að taka viðtöl við meinta þolendur kynferðisofbeldis. Barnaverndarnefnd getur einnig óskað eftir greiningu og meðferð fyrir barnið. Ef upplýsingar sem koma fram í rannsóknarviðtalinu gefa tilefni til að ætla að barn hafi þörf fyrir meðferð er hún veitt, þá yfirleitt að gefnu samþykki forsjáraðila. Að hámarki eru veitt 14 greiningar og meðferðarviðtöl alls. Ef þörf þykir á frekari meðferð er þó hægt að óska eftir því við viðkomandi barnaverndarnefnd. Þá hafa verið uppi hugmyndir um að bjóða upp á göngudeildarmeðferð fyrir unga gerendur. Í Barnahúsi er einnig mjög góð aðstaða til læknisskoðana en barnalæknir, kvensjúkdómalæknir og hjúkrunarfræðingur sjá um þann þátt starfseminnar. Hefur komið í ljós að svæfingar á börnum sem koma í slíka skoðun eru nú mjög sjaldgæfar en áður fyrr þurfti oft að grípa til þeirrar aðgerðar þegar börn fóru í læknisskoðun vegna meints kynferðisofbeldis

Nýjustu fréttir

Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

02. feb. 2024 : Framhaldsnámskeið ætlað tengiliðum farsældar

Nú hefur verið opnað fyrir framhaldsnámskeið sem ætlað er tengiliðum farsældar.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica