Sífellt fleiri börn sem þurfa á þjónustu Barnahúss
Barnaverndarstofa hefur tekið saman helstu tölur varðandi úrræði á þeirra vegum fyrir fyrstu níu mánuði ársins.
Umsóknir til Barnaverndarstofu svipað margar og í fyrra
Umsóknir um meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu voru jafn margar á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 miðað við sama tímabil árið á undan. Líkt og fyrri ár bárust flestar umsóknir vegna MST, eða 83 umsóknir sem er svipaður fjöldi umsókna og bárust á sama tímabili árin 2018 og 2020.
Fjöldi umsókna vegna Stuðla voru 25 á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 en þær voru 21-29 á sama tímabili áranna 2018-2020. Flestar umsóknir um meðferð bárust frá landsbyggðinni eða 38,5% og fleiri umsóknir um meðferð bárust vegna drengja en stúlkna, líkt og fyrri ár.
Beiðnir til Barnaverndarstofu um fósturheimili voru færri á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 en á sama tímabili árin 2019 og 2020, en fleiri en bárust á fyrstu níu mánuðum ársins 2018.
Líkt og fyrri ár voru flestar beiðnir vegna tímabundins fósturs, en slíkar beiðnir voru þó nokkuð færri en á sama tímabili áranna á undan. Fleiri beiðnir bárust vegna drengja en stúlkna fyrstu níu mánuði ársins 2021, og er það í takt við fyrri ár.
Umsóknum um leyfi til að gerast fósturforeldrar voru í takt við fjölda umsókna síðustu tveggja ára en á fyrstu níu mánuðum ársins bárust 36 umsóknir, en þær voru 27 og 28 á sama tímabili árin 2019 og 2020.
Skýrslutökur vegna kynferðisofbeldis 15,6% fleiri en allt árið 2020
Rannsóknarviðtöl í Barnahúsi skiptast í skýrslutökur fyrir dómi annars vegar og könnunarviðtöl fyrir barnaverndarnefndir hins vegar. Rannsóknarviðtölum fjölgaði úr 228 á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 í 323 fyrir sama tímabil á árinu 2021.
Skýrslutökur fyrir dómi voru 213 á fyrstu níu mánuðum ársins 2021, sem er 43% fleiri skýrslutökur en á sama tímabili árið 2020. Sú fjölgun sem má sjá á fyrstu níu mánuðum ársins 2021, miðað við sama tímabil áranna á undan, má helst rekja til fjölgunar skýrslutaka vegna kynferðislegs ofbeldis.
Á tímabilinu janúar til september 2021 voru skýrslutökur vegna kynferðislegs ofbeldis tvöfalt fleiri en á sama tímabili árið 2020. Raunar er staðan sú að fjöldi skýrslutaka vegna kynferðislegs ofbeldis á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 eru 56,4% fleiri en allt árið 2018, 26,7% fleiri en allt árið 2019 og 15,6% fleiri en allt árið 2020.
Skýrslutökur vegna líkamlegs og heimilisofbeldis voru svipað margar á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 samanborið við sama tímabil 2020. Þá ber að nefna að mikil aukning var á fjölda skýrslutaka vegna líkamlegs- og heimilisofbeldis á fyrstu níu mánuðum ársins 2020, samanborið við sama tímabil áranna á undan, eða 138-181% aukning á milli tímabila. Því er ljóst að þó svo að fjöldi skýrslutaka vegna líkamlegs- og heimilisofbeldis á tímabilinu janúar til september 2021 svipi til sama tímabils ársins 2020, er fjöldi skýrslutaka langt umfram það sem áður var.
Könnunarviðtöl fyrir barnaverndarnefndir voru 110 á fyrstu níu mánuðum ársins 2021. Eru það fleiri könnunarviðtöl en síðustu ár, en á sama tímabili áranna 2018-2020 voru könnunarviðtöl 75-82. Stúlkur voru í meirihluta þeirra barna sem komu í rannsóknarviðtöl fyrstu níu mánuði ársins 2021, líkt og fyrri ár.
Vistunardagar svipað margir á Stuðlum og í fyrra
Vistunum á lokaðri deild á Stuðlum fækkaði úr 124 í 115 á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 miðað við sama tímabil árið á undan. Vistunardagar á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 voru svipað margir og á sama tímabili 2020 en þó heldur færri en fyrstu níu mánuði áranna 2018 og 2019. Alls komu 57 börn á lokaða deild á fyrstu níu mánuðum ársins 2021, en þau voru 58 á sama tímabili árið 2020.