Meðferðarheimili

Meðferðarheimili Barnaverndarstofu eru tvö, staðsett á landsbyggðinni, Laugaland er í Eyjafjarðarsveit og Lækjarbakki er á Rangárvöllum. 

Um er að ræða rými fyrir samtals 12 börn á aldrinum 13 – 18 ára. Gerður er vistunarsamningur til sex mánaða og svo er metin þörf barns fyrir áframhaldandi meðferð. Ástæður vistunar eru hegðunarröskun, afbrotahegðun, ofbeldi og vímuefnaneysla. Einungis starfsfólk barnaverndar geta sótt um vistun fyrir börn á meðferðarheimilum og verða börnin að hafa áður fengið meðferð og greiningu á Stuðlum. 

Einungis starfsfólk barnaverndar getur sótt um meðferð á heimilum sem rekin eru samkvæmt barnaverndarlögum. Umsóknir skulu berast til Barnaverndarstofu að fengnu samþykki forsjármanna og barns sem náð hefur 15 ára aldri. Vistun án samþykkis forsjármanna og/eða barns eldri en 15 ára kemur eingöngu til álita hafi barnaverndarnefnd og/eða dómstólar úrskurðað þar að lútandi. Barnaverndarstofa leggur mat á umsóknir og tekur ákvörðun um afgreiðslu þeirra. 

Ákvörðun tekur mið af vanda barnanna, heilsufarssögu, félagslegri stöðu, fjölskylduaðstæðum, námsstöðu og áföllum sem börn kunna að hafa orðið fyrir ásamt afskiptum lögreglu. Einnig er haft til viðmiðunar hvaða úrræðum hefur verið beitt áður. Skilyrði fyrir vistun á meðferðarheimili er að barn hafi lokið meðferð á Stuðlum. Ítarleg og vel rökstudd gögn í máli barnsins sem fengist hafa með öðrum hætti geta á sama hátt legið til grundvallar ákvörðun um vistun á meðferðarheimili.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica