Leiðbeiningar um heimild til að fela starfsmönnum barnaverndarnefnda könnun og meðferð mála og framsal valds.


Fjallað er um starfslið barnaverndarnefnda í 14. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 en skv. 1. mgr. ákvæðisins skal barnaverndarnefnd ráða sérhæft starfslið eða tryggja sér aðgang að viðeigandi sérþekkingu með öðrum hætti. Barnaverndarnefnd er heimilt að fela starfsmönnum könnun og meðferð einstakra mála eða málaflokka og framselja tilgreindum starfsmönnum vald til að taka einstakar ákvarðanir samkvæmt heimild í 3. mgr. 14. gr. laganna og 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 56/2004, um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd.

Fjallað er um starfslið barnaverndarnefnda í 14. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 en skv. 1. mgr. ákvæðisins skal barnaverndarnefnd ráða sérhæft starfslið eða tryggja sér aðgang að viðeigandi sérþekkingu með öðrum hætti. Barnaverndarnefnd er heimilt að fela starfsmönnum könnun og meðferð einstakra mála eða málaflokka og framselja tilgreindum starfsmönnum vald til að taka einstakar ákvarðanir samkvæmt heimild í 3. mgr. 14. gr. laganna og 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 56/2004, um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd.

Er barnaverndarnefndum skylt að setja slíkar skriflegar reglur um verkaskiptingu milli nefndar og starfsmanna, þar sem meðal annars er kveðið á um að hvaða marki barnaverndarnefnd framselur til einstakra starfsmanna vald til að taka ákvarðanir, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 56/2004.

Óheimilt er að framselja frá barnaverndarnefnd vald til að kveða upp úrskurði samkvæmt barnaverndarlögum og taka ákvarðanir um málshöfðun samkvæmt 28. og 29. gr. laganna sbr. 4. mgr. 14. gr og 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 56/2004. Slíkar ákvarðanir verður að taka á fundum barnaverndarnefndar.

Barnaverndarnefndir hafa samkvæmt framangreindu töluvert víðtækar heimildir til þess að framselja tilgreindum starfsmönnum sínum vald til ákvarðanatöku og er heimilt að framselja vald til töku allra annarra ákvarðana en beinlínis eru undanskildar í 4. mgr. 14. gr. laganna og 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 56/2004. Hefur umboðsmaður Alþingis fallist á þá túlkun, sbr. lokabréf í máli nr. 5826/2009 frá 13. desember 2010.

Ávallt þarf að kynna kæruleiðir fyrir þeim sem ákvörðun beinist að, óháð því hvort barnaverndarnefnd tekur ákvörðun eða starfsmanni er falið að taka hana. Hafa þarf í huga að allar stjórnvaldsákvarðanir, þ.e. ákvarðanir sem varðar réttindi eða skyldur einstaklinga, eru kæranlegar. Eina undantekningin á því er ákvörðun um að hefja könnun máls eða láta mál niður falla sbr. 4. mgr. 21. gr. barnaverndarlaga.

Vald til vinnslu einstakra mála og ákvarðanatöku liggur alfarið hjá þeim nefndum sem hafa ekki sett sér reglur á grundvelli 3. mgr. 14. gr. barnaverndarlaga og 1. mgr. 4. gr. reglugarðar nr. 56/2004. .

Við setningu reglna samkvæmt 3. mgr. 14. gr. barnaverndarlaga og 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 56/2004 þarf að hafa eftirfarandi í huga:

1 Verkefni sem starfsmönnum eru falin

Tilgreina þarf sérstaklega hvaða verkefnum starfsmönnum er falið að sinna. Sem dæmi má nefna að ef fela á starfsmönnum að meta hvaða gagna á að afla við könnun mála, ganga frá áætlun um meðferð máls, meta hvort tilefni sé til þess að fresta tilkynningu til foreldra um að tilkynning hafi borist eða að ganga frá umsögnum til sýslumanna vegna ættleiðingar- eða umgengnismála verður að taka það sérstaklega fram.

2 Heimildir starfsmanna til ákvarðanatöku

Ávallt þarf að tilgreina hvaða ákvarðanir starfsmönnum er veitt heimild til þess að taka, þ.e. telja þarf upp hvaða ákvarðanir barnaverndarnefnd felur starfsmönnum að taka. Ef framselja á ákvarðanir sem kveðið er á um í reglugerðum þarf einnig að tiltaka þær sérstaklega. Sem dæmi um slíkar ákvarðanir má nefna ákvörðun um beitingu úrræða, ákvörðun um að hefja janúar 2011 2

könnun máls eða loka því, ákvörðun um að óska eftir lögreglurannsókn eða ákvörðun um vistun barns utan heimils með samþykki forsjáraðila og barns, sem náð hefur 15 ára aldri.

Þær ákvarðanir, sem ekki hafa verið framseldar með beinum hætti til starfsmanna, verður barnaverndarnefnd að taka á fundi.

Tilgreina þarf sérstaklega hvaða starfsmanni/starfsmönnum er veitt heimild til þess að að taka tiltekna ákvörðun.

3 Valdsvið teymisfunda

Ef ákvörðun, s.s. um hvort hefja á könnun máls eða varðandi beitingu úrræða og gerð áætlana um meðferð máls, er tekin á sérstökum fundum þarf að kveða á um það í reglunum.

Jafnframt verður í reglunum að vera kveðið á um hlutverk og valdsvið funda, hvaða starfsmenn sitja fundina og einnig hvaða vald þeim starfsmönnum er falið, ýmist tilteknum starfsmanni eða fundinum í heild.

Ef reglurnar fela í sér að tilteknum hópi starfsmanna er veitt heimild til að taka ákvarðanir á fundi þarf jafnframt að koma fram í reglunum hversu margir starfsmenn þurfa að sitja fundinn til þess að hann sé valdbær, þ.e. geti tekið ákvörðun í einstökum málum.

Ef einstaka starfsmönnum er heimild að taka viðkomandi ákvarðanir í sérstökum undantekningartilvikum þarf að vera kveðið á um það í reglunum í hvaða tilvikum slíkt er heimilt og hvaða starfsmanni er veitt heimild til þess að taka ákvörðunina.

4 Gildistaka reglna

Í reglunum þarf að tilgreina hvenær þær taka gildi. Ekki er hægt að láta slíkar reglur gilda aftur í tímann. Sama gildir um breytingar á reglum. Þá þarf jafnframt að koma fram í reglunum hvenær tilteknu ákvæði var breytt.

5 Kynning á reglum

Skylt er að senda Barnaverndarstofu afrit af reglunum um leið og þær hafa verið samþykktar af barnaverndarnefnd. Sama gildir um allar breytingar sem gerðar eru á reglunum.

Barnaverndarnefnd er skylt að hafa reglurnar aðgengilegar almenningi, s.s. á heimasíðu sveitarfélags.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica