Viltu tilkynna um aðstæður barns?

Hringdu þá í barnaverndarnefnd eða númerið 112

Hver tekur á móti barnaverndartilkynningum?

Starfsfólk barnaverndarnefnda:
Starfsfólkið veitir tekur við tilkynningum og veitir upplýsingar á dagvinnutíma.
Símanúmer/netföng barnaverndarnefnda má sjá með því að smella hér, auk upplýsinga um hvaða sveitarfélag tilheyrir hvaða barnaverndarnefnd. 

Neyðarnúmerið 112
112 er ætlað til að hafa samband vegna bráðatilvika í barnaverndarmálum. Starfsmenn 112 greina þau erindi sem berast neyðarþjónustunni og í þeim tilfellum þar sem nauðsynlegt er að grípa strax til aðgerða vegna aðstæðna barns er erindinu þegar vísað á barnaverndarnefnd viðkomandi sveitarfélags. Annars fær starfsfólk barnaverndar skýrslu um símtalið næsta virka dag.

ATH! Barnaverndarstofa tekur EKKI við barnaverndartilkynningum!
 

NAFNLEYND: Í barnaverndarlögunum er fjallað um nafnleynd tilkynnanda. Hinn almenni tilkynnandi, ættingjar eða aðrir nákomnir, geta óskað nafnleyndar gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd, en opinberir aðilar s.s. starfsfólk skóla, leikskóla, spítala, heilsugæslu, starfsfólk annarra félagsmálastofnana eða barnaverndarnefnda o.s.frv. getur ekki tilkynnt undir nafnleynd.

Þú átt að hafa samband við barnaverndarnefnd ef þú hefur ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, það verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að heilsu þess og þroska sé stefnt í alvarlega hættu. Ekki gera ráð fyrir að einhver annar sé búin að tilkynna. Ekki vona að aðstæður barns lagist og bíða með að tilkynna. Láttu vita, það er svo í verkahring starfsfólks barnaverndarnefnda að skoða málið frekar og taka afstöðu til þess hvort þörf sé á að kanna málið á grundvelli barnaverndarlaga.

Tilkynningarskylda:
Í 16. gr. barnaverndarlaga segir: „Öllum er skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn:
a. búi við óviðunandi uppeldisaðstæður
b. verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða
c. stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.
Þá er hverjum manni skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart ef ástæða er til að ætla að heilsu eða lífi ófædds barns sé stefnt í hættu með óviðunandi eða háskalegu líferni þungaðrar konu, t.d. með ofneyslu áfengis eða fíkniefnaneyslu, eða með því að þunguð kona er beitt ofbeldi eða ef ástæða er til að ætla að þunguð kona sé beitt ofbeldi, eða um hvert það tilvik sem telja má að barnaverndarnefnd eigi að láta sig varða.

Atriði sem hafa þarf í huga þegar meta skal hvort tilkynna skuli um aðstæður barns/unglings til barnaverndar:

  • líkamleg og andleg vanræksla;
  • líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi;
  • ung börn eru skilin eftir gæslulaus eða í umsjá annarra barna;
  • eldri börn skilin eftir langtímum saman og þurfa að sjá um sig sjálf;
  • léleg skólasókn, skólaskyldu ekki sinnt;
  • afbrot, árásargirni;
  • heilsugæslu ekki sinnt þótt um vanheilsu sé að ræða;
  • há tíðni smáslysa sem hægt hefði verið að fyrirbyggja;
  • endurteknir áverkar sem barn á erfitt með að útskýra;
  • vannæring;
  • lélegur fatnaður sem hentar illa aðstæðum;
  • vímuefnaneysla foreldra.

 Atriði sem sérstaklega þarf að hafa í huga vegna unglinga:

  • áfengis-og vímuefnaneysla;
  • léleg skólasókn;
  • endurtekin afbrot;
  • ofbeldishegðun;
  • þunglyndi, geðröskun, sjálfsvígshugleiðingar.

barnanumerid112

Algengar spurningar


Þetta vefsvæði byggir á Eplica