Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu fyrstu sex mánuði áranna 2015 og 2016

21 sep. 2016

Í þessari samantekt er að finna samanburð á fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda skv. sískráningu nefndanna fyrstu sex mánuði áranna 2015 og 2016.  Endanlegar upplýsingar um fjölda tilkynninga koma fram í samtölublöðum barnaverndarnefndanna sem birtast í ársskýrslu Barnaverndarstofu. Einnig er hér að finna upplýsingar um fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu fyrir fyrstu sex mánuði áranna 2015 og 2016.

Tilkynningar til barnaverndarnefnda

Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgaði um 5,5% á fyrstu sex mánuðum ársins 2016 miðað við sama tímabil árið á undan. Fjöldi tilkynninga á fyrstu sex mánuðum ársins 2016 var 4.582 tilkynningar, en 4.344 fyrir sama tímabil árið á undan. Tilkynningum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði lítillega en á landsbyggðinni fjölgaði tilkynningum um 14,1%. Þess ber að geta að tilkynning til barnaverndarnefndar verður að barnaverndarmáli ef tekin er ákvörðun um könnun máls í kjölfar tilkynningarinnar.

 Flestar tilkynningar á fyrstu sex mánuðum ársins 2016 voru vegna vanrækslu líkt og árið á undan en hlutfall tilkynninga vegna vanrækslu var 40,5% tilkynninga. Ekki voru teljandi breytingar í samanburði fyrstu sex mánaða áranna 2015 og 2016 varðandi einstaka flokka tilkynninga Flestar tilkynningar bárust frá lögreglu, eða 41,2% tilkynninga á fyrstu sex mánuðum ársins 2016, hlutfallið var 41,7%  fyrir samatímabil árið á undan.

 Umsóknir til Barnaverndarstofu

Umsóknum um meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu fækkaði um eina á fyrstu sex mánuðum ársins 2015 miðað við sama tímabil árið á undan.

Umsóknir um Stuðla voru 14 talsins bæði árin, umsóknir um önnur meðferðarheimili (Laugaland, Lækjarbakka og Háholt) voru 13 og fjölgaði um tvær á fyrstu sex mánuðum ársins 2016 miðað við sama tímabil árið á undan og umsóknum um MST fækkaði úr 44 umsóknum í 41 umsókn. Fjölkerfameðferð (MST) snýr að fjölskyldum unglinga með fjölþættan hegðunarvanda sem kominn er á það alvarlegt stig að vistun unglings utan heimilis er talin koma til greina. Markhópurinn eru unglingar á aldrinum 12-18 ára og fer meðferðin fram á heimilum fólks. Frá því í febrúar 2015 hefur þjónusta MST náð til alls landsins, en áður var þjónustusvæðið miðað við 60 min. akstursfjarlægð frá Reykjavík. Fleiri umsóknir bárust fyrir drengi en stúlkur á fyrstu sex mánuðum ársins 2016.

 Beiðnum til Barnaverndarstofu um fósturheimili fjölgaði á fyrstu sex mánuði ársins 2016 úr 70 beiðnum í 74 miðað við sama tímabilið árið á undan. Beiðnum um tímabundið fóstur og varanlegt fóstur fjölgaði, en beiðnum um styrkt fóstur fækkaði. Flestar beiðnir voru frá Reykjavík bæði árin.

 Rannsóknarviðtöl í Barnahúsi skiptast í skýrslutökur fyrir dómi annars vegar og könnunarviðtöl fyrir barnaverndarnefndir hins vegnar. Rannsóknarviðtölum alls fækkaði úr 136 á fyrstu sex mánuðum ársins 2015 í 111 fyrir sama tímabil árið 2016. Skýrslutökum fyrir dómi fækkaði úr 71 í 55 milli ára og könnunarviðtölum fyrir barnaverndarnefndir fækkaði úr 65 í 56. Skýrslutökum vegna kynferðislegs ofbeldis fækkaði á fyrstu sex mánuðum ársins 2016 miðað við sama tímabil árið á undan, en frá því í mars 2015 hefur Barnahús einnig sinnt skýrslutökum og meðferð barna sem hafa upplifað líkamlegt ofbeldi og/eða heimilisofbeldi. Börnum sem fóru í greiningar- og meðferðarviðtöl fjölgaði úr 65 í 71.

 Vistanir á neyðarvistun Stuðla voru 99 á fyrstu sex mánuðum ársins 2016 en 87 fyrir sama tímabil árið á undan. Vistunardögum fækkaði úr 562 dögum í 543 daga. Fjöldi einstaklinga var 58 börn á fyrstu sex mánuðum ársins 2016, en 50 börn fyrir sama tímabil árið á undan.

 Umsóknum um leyfi til að gerast fósturforeldrar fjölgaði, voru 34 á fyrstu sex mánuðum ársins 2016, en 27 fyrir sama tímabil árið á undan. Flestar umsóknir voru frá Reykjavík og nágrenni.

Hér má nálgast skýrsluna

 


Nýjustu fréttir

15. maí 2024 : Stöðuskýrsla til ráðherra á þriðja ári innleiðingar

Frá því að lögin um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna voru samþykkt hefur markvisst verið unnið að innleiðingu þeirra á vegum ríkis og sveitarfélaga um allt land.

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

26. mar. 2024 : Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2021 - 2023

Barna- og fjölskyldustofa hefur tekið saman fjölda tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustum árið 2023. Tilkynningum fjölgaði um 11,3% á árinu miðað við 2022 en fjöldi tilkynninga á árinu 2023 voru 15.240.

Lesa meira

21. feb. 2024 : Sexan stuttmyndasamkeppni

Sexan stuttmyndasamkeppni er nýtt fræðsluverkefni Neyðarlínunnar um stafrænt ofbeldi fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og dómnefnd hefur valið sigurvegara ársins 2024. 

Lesa meira
Utlit-a-namskeid-_agust.001-16

16. feb. 2024 : Samantekt um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu 2020-2023

Við lok árs 2021 var Barnaverndarstofa lögð niður og ný stofnun, Barna- og fjölskyldustofa, tók við. Í þessari samantekt er að finna upplýsingar um úrræði og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2020-2021 og árið 2022-2023, til Barna- og fjölskyldustofu. Þá má finna tölulegar upplýsingar úr Barnahúsi frá sama tímabili, fyrir allt árið 2020-2023.

Lesa meira

Þetta vefsvæði byggir á Eplica