Forsjá og umgengni

Hér má nálgast upplýsingar um forsjá og umgengni

Barna- og fjölskyldustofa vísar á embætti sýslumanns vegna spurninga um forsjá og umgengni. Einnig er gott að skoða barnalög.

Mál er varða umgengni við barn

Barnaverndarþjónustur hafa ekki ákvörðunarvald er varðar umgengni við barn. Í þeim tilfellum á að leita til sýslumanns í því umdæmi sem barnið býr

  • Hægt er að skjóta úrskurði sýslumanns til dómsmálaráðuneytisins.

Ef viðkomandi telur að málið sé komið á þann veg að engu að síður sé um barnaverndarmál að ræða ber að tilkynna til barnaverndarþjónustu í því umdæmi sem barnið býr. Barnaverndarþjónustur hafa einungis vald til að ákvarða umgengni ef barn er vistað utan heimilis á grundvelli barnaverndarlaga.

  • Því er unnt að leita til barnaverndarþjónustu er varðar slík mál og ef viðkomandi er ekki sáttur við úrvinnslu barnaverndarþjónustu í málinu á hann kost á því að kvarta til Barnaverndarstofu.

Mál er varða forsjá

Dómsmálaráðuneytið á líka að veita ráðgjöf og upplýsingar varðandi forsjármál.
Ef samkomulag er á milli foreldra um forsjá þá á að leita til sýslumanns í því umdæmi sem barnið býr. Sýslumenn bjóða m.a. upp á sáttaumleitanir milli foreldra ef einhver ágreiningur er uppi.

Ef ekki er samkomulag varðandi forsjá þá skal leita til dómstóla t.d. varðandi forsjársviptingu eða ef foreldrar geta ekki samið um forsjá.

  • Foreldrar sem hafa verið sviptir forsjá hafa ekki aðild að málum sem varða ákvarðanir um úrræði barninu til handa, að undanskildum málum er varða ákvörðun um umgengnisrétt.

Flutningur barns úr landi

Ef foreldrar fara sameiginlega með forsjá þá er öðru foreldri óheimilt að fara með barn úr landi án samþykkis hins. 

  • Ef foreldri fer með barn úr landi án samþykkis þá á að leita til lögreglu.

Ef annað foreldra á umgengnisrétt við barn þá má hitt foreldri ekki flytjast með barnið úr landi nema því foreldri sem umgengnisréttinn á sé sannarlega tilkynnt um fyrirhugaðan brottflutning með minnst 30 daga fyrirvara. Verði foreldrar ekki sammála um hvernig þá skuli skipa umgengni má bera mál undir sýslumann til úrskurðar.

Upplýsingar um barn

  • Foreldri sem ekki fer með forsjá barns hefur rétt til þess að fá (munnlegar) upplýsingar um hagi barnsins sjálfs, t.d. heilsu og skólagöngu.
  • Forsjárlaust foreldri á þó ekki rétt á að fá upplýsingar er tengjast forsjárforeldri.
  • Foreldri sem hefur verið svipt forsjá á ekki rétt á neinum upplýsingum um barn sitt.

Ef viðkomandi er ekki sáttur við þá úrlausn sem sýslumaður eða dómsmálaráðuneyti veitir honum á hann ávallt kost á því að leita til Umboðsmanns Alþingis og leggja fram kvörtun.

Ef þú ert að leita eftir upplýsingum er varðar skóla barns

Leita skal til skólaskrifstofu, fræðsluþjónustu eða skólanefndar í viðkomandi sveitarfélagi. Mennta- og barnamálaráðuneytið fer með yfirstjórnina og því hægt að leita til þess ef hitt þrýtur. 

Ef þú ert að leita eftir upplýsingum er varða félagsþjónustu t.d. félagslega aðstoð o.fl.

Þá á viðkomandi að leita til þjónustumiðstöðvar í sínu hverfi í Reykjavík eða félagsþjónustu í sínu sveitafélagi. Ákvörðun félagsmálanefndar má svo skjóta til úrskurðarnefndar velferðarmála.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica